Vegna snjóleysis á Dalvík leituðu Dalvíkingar til nágranna sinna á Siglufirði til að geta haldið sitt árlega Jónsmót.
Um 200 þátttakendur taka þátt í mótinu og mæta ásamt stuðningsfólki, starfsmönnum og foreldrum.
Skíðafélag Dalvíkur, Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg og rekstraraðili Skarðsdals hafa lagt á sig ómælda vinnu til að gera mótið sem glæsilegast.
Mótinu líkur í dag og verður þessi skemmtilega samvinna Dalvíkinga og Siglfirðinga án efa lengi í minnum höfð.


Skíðafélag Dalvíkur hefur síðan 1996 staðið fyrir skíðamóti með sundívafi sem haldið er til minningar um Jón Bjarnason, sem var einn af stofnendum félagsins. Mótið fer fram fyrstu dagana í mars ár hvert.
Mótið er ætlað 9-13 ára börnum af öllu landinu. Keppnin er að hluta til með óhefðbundnu sniði, keppt er í stórsvigi (1 umferð), 25 metra bringusundi í 9-10 ára flokki, 50 m bringusundi í 11-13 ára flokki og svigi (2 umferðir).
Í ár er mótið haldið í 29.skipti.
Að þessu sinni fór sundkeppnin fram á Dalvík en sökum snjóleysis á Dalvík var alpagreinakeppnin færð yfir á Skíðasvæði Siglfirðinga í Skarðsdal.
Góð samvinna er á milli S.S.S. og Skíðafélags Dalvíkur og er þetta í fyrsta skipti sem Dalvíkingar hafa þurft að leita til nágranna sinna á Siglufirði til að halda mót eins og þetta. Í ár mættu um það bil 200 keppendur til leiks allstaðar að af landinu.
Starfsmenn Skíðasvæðisins á Siglufirði hafa unnið hörðum höndum að því núna í tæpa viku að færa til snjó og halda keppnisbrekkunni eins góðri og hægt er því snjóleysi er einnig í Skarðsdal.
Skíðafélag Dalvíkur vill koma á framfæri kærum þökkum til Skíðafélags Siglufjarðar og starfsmönnum Skíðasvæðisins í Skarðsdal fyrir alla aðstoð og samvinnu.



Myndir/SSS, Jón Hrólfur, Alexandra Isold, Margrét Hlín