Dalvíkurbyggð hefur formlega hlotið jafnlaunavottun og starfrækir jafnlaunakerfi í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85:2012. Þá hefur Jafnréttisstofa veitt stofnuninni heimild til að nota jafnlaunamerkið. Vottunin nær yfir öll laun og öll kjör alls starfsfólks sveitarfélagsins.
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með jafnlaunavottun er staðfest að sveitarfélagið hafi komið upp ferli við launaákvarðanir sem byggir á kjarasamningum og málefnalegum sjónarmiðum og felur ekki í sér kynbundna mismunun.
Það var vottunarstofan iCert ehf sem tók út vottun á jafnlaunakerfi Dalvíkurbyggðar og fór lokavottunarúttektin fram í desember sl. Í vottunarúttektinni var farið yfir framkvæmd jafnlaunakerfisins með tilliti til krafna staðalsins og innri krafna kerfisins. Þá var einnig farið yfir launagreiningar og þá aðferðafræði sem að baki þeim liggur. Engin frávik voru greind í úttektinni, en nokkrar athugasemdir voru greindar og var unnið úr þeim áður en vottun lauk. Jafnlaunavottun er stöðugt umbótaferli og mun vottunarstofan gera árlega úttekt á jafnlaunastefnu og kerfi sveitarfélagsins.
Samhliða þessari vinnu fór fram jafnlaunagreining og sýna niðurstöður hennar að óútskýrður launamunur af heildarlaunum er nánast enginn og innan þeirra markmiða sem sveitarfélagið setti sér í upphafi, en það er að útskýrður launamunur verði aldrei meiri en 1,5% og ávallt sem næst 0%. Með þessu á að tryggja jafnan rétt, jöfn laun og sömu réttindi og kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni.
Vinnuhópur sveitarfélagsins um jafnlaunavottun hélt utan um undirbúning sveitarfélagsins fyrir jafnlaunavottunina en það er Rúna Kristín Sigurðardóttir, launafulltrúi, sem ber hitann og þungann af vinnunni og hefur umsjón með innleiðingu jafnlaunakerfisins. Einnig naut Dalvíkurbyggð aðstoðar Attentus – mannauður og ráðgjöf, við undirbúning og skipulag stjórnunarkerfisins.
Það var gleðilegur áfangi í síðustu viku þegar jafnlaunavottunin var í höfn því mjög mikil vinna liggur þar að baki. Niðurstöðurnar eru einnig ánægjuefni og staðfesting á því að hjá Dalvíkurbyggð er stuðlað að jafnrétti í launamálum og vinnulag samkvæmt því.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.