Hugleiðingar um bókina:
Fólkið á Eyrinni. “Smámyndir og þættir” eftir Örlyg Kristfinnsson, 2023.

Gatnamótabarn!

Eftir að hafa farið í allmargar skemmtilegar lestrar-heimsóknir með Siglfirska rithöfundinum, Örlygi Kristfinns, í hús, sem stóðu og þau standa mörg hver enn þá við Eyrargötu og Grundargötu, heima í síldarsögufirðinum fræga. Þá kom þetta orð “Gatnamótabarn” upp í huga mér sem gott lýsningarorð um persónuleika Örlygs og hans frásagnarstíl. Ég held sveimmérþá að þeir sem alast upp á gatnamótum eins og Örlygur, sjái og heyri hreinlega meira en aðrir sem eru fæddir og uppaldir í miðri götu. Þegar myndlistarmaðurinn Örlygur er rithöfundur, þá málar hann sannar sögumyndir í orðum inn í hausinn á öllum sem lesa þessa bók. Þessi einstaki sögu miðlunarhæfileiki sést líka vel í öllu sem hann hefur áorkað í áratugi hjá Síldarminjasafni Íslands.

Örlygur hefur ljúfan og sannan tón í öllu sem hann segir frá, hvort svo sem það eru hans eigin minningar eða annarra og það er af og frá að nokkur maður geti sagt um þessa bók, að hún innihaldi bara upptalningu á fólki sem hefur búið í húsum við þessar tvær Eyrargötur á árunum 1940 til 1970. Að höfundur velji þessi ár og akkúrat þessar tvær götur á Eyrinni hefur líklega með þá staðreynd að gera, að ef sagt væri frá öllum á Eyrinni, þá yrði þetta “sagan endalausa.” Tíu bækur myndu ekki duga til að segja allar þær sögur sem tilheyra einmitt þessari merkilegu smábæjareyri.

Því þetta er engin venjuleg EYRI, áður en hún varð heimsfræg, var hún bara sand- og leirdrullumýri sem ekki kom að neinum notum… en svo kom blessuð síldin og þá gerast hlutirnir hratt og Siglufjarðar Eyrin verður þá miðborg stórra samfélagsbreytinga á Íslandi í áratugi.

Eina iðnaðarbylting Íslands, gerðist einmitt hér… á þessari Eyri.

Það er þessi saga sem svo augljóslega kemur vel fram í “smámyndum og þáttum” Örlygs um fólkið sem bjó í húsum við þessar tvær götur. Sum hús stóðu samt varla undir því nafni að vera kölluð mannabústaðir, því á eyrinni bjuggu líka allskyns skepnur og pólitík, innan um vélaverkstæði, verslanir, hótel, skemmtistaði, trúboða og illa lyktandi fiskvinnsluversksmiðjur svo eitthvað sé nefnt.

Hversdagsleiki og hugrökk alþýða Íslands í máli og myndum

Lífið er 99 % hversdagsleiki og kannski 1 % hátíðisdagar, en samt viljum við mest muna eftir gömlum jólum og 17 júní, gegnum hátíðlega sparifata uppstilltar gamlar ljósmyndir. En við Siglfirðingar erum líklega eina bæjarfélagið á Íslandi sem á sér svo ríkluegan minningarbanka af hversdagssögum og ljósmyndum um líf og hagi venjulegs fólks og bókin “Fólkið á Eyrinni” er virkilega enn ein fjöðrin í hattinn hjá okkur.

Það er eitthvað svo dásamlega spennandi við það að fá að kíkja á myndir og lesa um horfin alþýðu hversdagsleika, í húsum og bakhúsum í Eyrarsögum Örlygs. Örlygur minnir okkur öll á að það eru fáir innfæddir Siglfirðingar sem búa á þessari Eyri, aðfluttir verða fljótlega í meirihluta og þetta fólk kemur úr öllum áttum og lætur sig hafa það að kannski búa í útihúsum um stundarsakir meðan það kemur undir sig og sína fótfestu í nýju lífi í nútímalegum tæknivæddum firði. Hér og kannski bara hér, var boðið upp á raunhæfan möguleika að vinna sig úr fátækt og skuldaánauð sem fyrri kynslóðir þekktu svo vel úr öðrum sveitum landsins. Það krafðist örugglega nokkurs hugrekkis að þora að flytja úr fallegri fátækri sveit í þröngan illalyktandi fjörð sem ekki hafði alltaf á sér góðan orðstír… en hér á Siglufjarðar Eyrinni fannst samt framtíðar von… um að fá loksins að ráða einhverju sjálfur…

Hversdagsleikinn á Eyrinni er vissulega fullur af þrælavinnu, en einmitt hérna getur þrællinn samt orðið frjáls, komið börnum sínum til mennta, hrist af sér þrælahlekkina í verkalýðsbaráttunni og orðið virtur fyrir einstaka frístundahæfileika, sem oftast komu að góðum notum yfir langa einangraða vetrarmánuði og jafnvel með árunum unnið sig upp í metorðastiganum og orðið samþykktur ómenntaður broddborgari seinna meir. Örlygur nefnir það einmitt til gamans, að þremur alvöru sósíalistum var boðið að gerast meðlimir í Rotarýfélaginu góða, en það var mest út af því að akkúrat þessir þessir sósíalistar voru svo skemmtilegir karakterar

Fólkið í húsunum í Eyrarsögunum er oft kennt við þá staði sem það kemur frá, allskyns viðurnöfn og gælunöfn myndast, sem oft lýsa vel persónuleika og hæfileikum einstaklinga sem margir hverjir eru minnst sagt sérkennilegar persónur.

Örlygur sjálfur er einn af þeim, þrátt fyrir að hann sé innfæddur Siglfirskur Eyrargutti, en sá sem ritar þessi orð man úr barnæsku eftir að hafa mætt Ölla gangandi töffaralega um Eyrina með taminn hrafn á öxlinni… En maður kippti sér svo sem ekki mikið upp við það, það gat allt gerst á Eyrinni. Robbi Palla á Höfninni, annar strákur á svipuðu aldri var með einn eða tvo refi sem gæludýr í skúr við Norðurgötuna, það var reyndar hálfgerður húsdýragarður þarna rétt hjá Barnaskólanum og margt og mikið að sjá fyrir unga forvitna suðurbæjardrengi.

Örlygur og Krummi. Ljósmynd frá bls. 421. Ljósmyndari: Anna Vignis.

Örlygur segir okkur frá sjálfum sér og öðrum á einstakan máta og maður þarf ekkert endilega að fara í húsaheimsóknir í réttri götunúmeraröð. Þú getur alveg skroppið fyrst inn til elsku ömmu Teu og Bóbó á Grundargötu 9 og svo forvitnast um sögur af Guðmundi Góða í húsinu beint á móti, númer 12 og svo læðst varlega fram hjá litla skrítna steinkastala húsinu hennar Náttfríðar sem stóð norðan við Ljósmyndastofu Siglufjarðar, æskuheimili Örlygs. Staldrað síðan aðeins við og horfa á flotta bilaða bíla hjá Bifreiðaverkstæðinu Neista og svo myndi ég persónulega enda sögu göngutúrinn hjá Valda frænda og Ólínu í Héðinsfjarðar “Vatnsendahúsinu” við Grundargötu 22.
Húsi sem stóð í stanslausum skugga frá tveimur af stærstu húsum Eyrarinnar, Mjölhúsinu að norðan og Tunnuverksmiðjunni að vestan.

En einmitt í orðum á þessum síðustu 480 síðum bókarinnar tekur Örlygur sér skáldaleyfi til að setja sig í spor Valda ömmubróður míns og Ólínu. Þau voru bæði fædd í fortíð með fagri Héðinsfjarðar fjallasýn og gátu líklega aldrei vanist því að búa í húsaskugga hárra verksmiðjubygginga.
En ekki getur náttúruvænn rafmagnslaus fortíðar búskapur og heimahagaþrá foreldra staðið í vegi fyrir framtíðarþörfum barna og komandi Vatnsendakynslóða… Nútíminn og möguleikarnir á Siglufirði börðu svo ákaft á bæjardyrnar í Héðinsfirði, líkt og vélrænn Þorgeirsboladraugur sem minnti á sig daglega, þar til 1949, að uppgjöfin varð algjör. Jörðin og ættarsagan yfirgefin og lögð í eyði, nýr lífskafli byrjar í tæknivæddri síldveiði óvissu og hávaða. En Valdi hélt samt áfram að vera einn af mörgum verkamanna rolluköllum fjarðarins og fylgdi oft sínu féi til og frá Héðinsfirði í mörg herras ár.

En Valdi frændi og Ólina dóu sem sannir og stoltir Siglfirðingar og það gerðu flestir þeirra sem fluttu á Eyrina líka. Fórnuðu miklu og urðu mikilvægir þátttakendur í stórum samfélagsbreytingum fyrir sig og sína. Jafnvel þótt að margir hafi seinna flutt burt eftir síldarhvarfið, halda þeir og þeirra afkomendur áfram að kalla sig Siglfirðinga og vilja örugglega bæði lesa þessar Eyrarsögur og halda áfram að segja sína eigin sögur um lífið á Sigló.

Dásamlegar sögur um Fólkið á Eyrinni og allir þættir og hliðarsögur Örlygs, bætast nú við í okkar stóra sameiginlega Siglósögusarp.

Greinarhöfundur er fullur aðdáunar fyrir þeirri miklu heimildarvinnu, sem höfundur hefur lagt á sig og það er augljóst að í þessu langa ferli hefur örugglega fylgt með mikið af erfiðum sögufæðingarhríðum og eflaust urðu sögur afgangs…. munaðarlausar Siglósögur sem vonandi koma til okkar seinna frá okkar ástkæra Eyrargutta, Ölla Kristfinns.

Yfirlit yfir aðrar bækur eftir Örlyg Kristfinnsson:
Svipmyndir úr síldarbæ 2010
Saga úr Síldarfirði 2011
Svipmyndir úr síldarbæ II 2013

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Samsett forsíðu ljósmynd er fengin að láni frá Kortasjá Fjallabyggðar.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá bókarhöfundi.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON