
Tónlistarmaðurinn Davíð Máni hefur gefið út sína fyrstu sólóplötu – The Mancave Tapes – 11 laga verk í anda 90’s grunge-rokkins, kryddað með áhrifum úr pönki, blús og þungu rokki. Á plötunni má heyra tilfinningaríka texta og fjölbreyttar tónsmíðar þar sem gestir úr grasrótartónlistarsenu Akureyrar leggja sitt af mörkum.
Meðal þeirra sem koma við sögu eru Ari Orrason (Pool Of Sorrow), Hallgrímur Jónas Ómarsson (Vetrar Blús), Daníel Hrafn úr SÓT, auk þeirra eru Daníel Alpi og Alexander Örn úr Dream The Name – en þau leika öll í lokalaginu Starlet.
Hugmyndin að plötunni kviknaði þegar Davíð heyrði lagið Mind Mischief eftir Tame Impala í útvarpinu og áttaði sig á að hann gæti tekið upp og spilað sjálfur, rétt eins og Kevin Parker gerir í Tame Impala. Hann sá um alla spilamennsku og upptökur á plötunni sjálfur, fyrir utan einstaka gítarsóló og bakraddir frá gestum. Hallgrímur Jónas Ómarsson sá um upptökur, hljóðblöndun og masteringu.
Lögin fjalla um margs konar tilfinningar – þar á meðal þunglyndi, eiturlyfjafíkn, ást og einhverfu. Í laginu Hang Man lýsir Davíð því sem tjáningu um baráttu manneskju við eigið þunglyndi, þar sem umhverfið er fullt af góðum ráðum frá fólki sem þó skilur ekki raunverulega líðan viðkomandi. Lagið Misunderstood fjallar um persónulega reynslu hans af einhverfu og erfiðleikum í samskiptum, bæði við hitt kynið og almennt.
Gestir plötunnar eru nánir vinir Davíðs sem hann hefur áður unnið með í tónlistarsenu Akureyrar. Hann vildi að platan yrði einnig kveðja til þessarar frjóu og skapandi senu, sem endurspeglast í umslagshönnun eftir unga listamanninn Odd.
YouTube: https://www.youtube.com/@dabbimakesmusic
Facebook: https://www.facebook.com/profile.php?id=61574637862340