Diskóflokkurinn Poppvélin skipuð þeim Örlygi Smára, Sólveigu Ásgeirssdóttur, Valgeiri Magnússyni og Pétri Guðmundssyni sendir nú frá sér sitt fyrsta lag; Sumardans.
Lagið verður leikið í þættinum Tíu Dropar sem er á dagskrá FM Trölla alla sunnudaga kl. 13 – 15.
Örlygur Smári hefur samið fjöldan allan af stórsmellum m.a. Allt fyrir ástina, International og Betra Líf með Páli Óskari, Je Ne Sais Quoi með Heru Björku, Give Me Sexy með Haffa Haff og Tell Me sem keppti í Eurovision áriið 2000.
Valgeir hefur samið fjöldann allan af textum við þekkt dægurlög m.a. fyrir Aron Hannes, Heru Björku og Björgvin Halldórsson.
Pétur hefur starfað nánast eingöngu við tónlist síðastliðin 25 ár. Hann kemur helst fram með Dúndurfréttum og sem forsöngvari hljómsveitarinnar Buff og hefur enginn farið eins oft sem söngvari í Eurovision frá Íslandi.
Allir hafa þeir unnið við fjöldan allan af lögum sem hafa farið í Eurovision og saman gerðu þeir framlag Íslands árið 2013, Ég á líf.
Sólveig Ásgeirsdóttir er ung lítið þekkt söngkona. Hún hefur búið og sungið mikið erlendis undanfarin ár, nú síðast hjá Sunwing entertainment þar sem hún ferðaðist á milli Sunwing hótela við Miðjarðarhafið með söngflokki. Sólveig varð skyndihjálparmaður árisins árið 2020 fyrir að bjarga lífi vinkonu sinnar.
“Við Pétur og Valli vorum með hugmyndir um samstarf en vildum fá söngkonu með okkur í verkefnið. Ég sá Sólveigu syngja í starfsmannagleiði um daginn og hugsaði bara: Vá hvaða söngkona er þetta?. Uppfrá því töluðum við saman sem endaði á því að hún kom í studio til mín til að prufa nokkrar lagahugmyndir. Ég lét þá Valla og Pétur vita að ég væri með frábæra manneskjum með okkur í Poppvélina og þegar þeir heyrðu röddina þá voru allir sammála um að hún væri málið.” Segir Örlygur Smári um valið á Sólveigu sem forsöngvara Poppvélarinnar en bæði vinna þau hjá Origo.
Nýja lagið heitir Sumardans og er lagið eftir Örlyg Smára og textinn eftir Valgeir Magnússon. Lagið er gefið út af Hands Up Music ehf.