Gosið sem hófst í Geldingadölum korter í níu föstudagskvöldið 19. mars s.l. er víða sýnilegt.

Augun ætluðu út úr greinarhöfundi þegar hún greindi rauðan bjarma út um svefnherbergisgluggann sama kvöld og gosið hófst.

Við erum einstaklega vel staðsett til að geta fylgst með gosinu út um glugga og af svölunum.

Síðan höfum við hjónin Vilborg og Geir Þórarinn tekið myndir með reglulegu millibili. Ýmist á símann eða gamaldags alvöru myndavél.

Til tals hefur komið að auglýsa hópferðir á svalirnar en úr því hefur ekki orðið en þess í stað koma vinir af og til til að spjalla og gjóa augunum í leiðinni á herlegheitin. Þá er gjarnan notað spritt – útvortis – og haldið hæfilegri fjarlægð.

Síbreytileiki gossins er mikill frá hverju augnabliki til þess næsta. Stundum hafa strókarnir virst margir, stundum er gosið stöðugt og stundum með strókum. Síbreytileg skýjamyndun og sjáanleg mengun sem leggur langar leiðir.

Sjón er sögu ríkari og vonandi njótið þið með okkur.