Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra heimsótti nýverið sýslumann, lögreglu og héraðsdóm á Norðurlandi vestra.
Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra
Á Blönduósi tók sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra, Birna Ágústsdóttir, á móti ráðherra og kynnti starfsemi sýslumannsembættisins. Auk þess að vera hefðbundið sýslumannsembætti sér embættið á Norðurlandi vestra meðal annars um innheimtu sekta og sakarkostnaðar fyrir landið allt og er starfsstöðin á Blönduósi sérstaklega mönnuð í samræmi við það. Þann 1. janúar næstkomandi mun embættið taka við stjórnsýsluverkefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga til viðbótar öðrum innheimtuverkefnum sínum en þeir starfsmenn, sem verkefnunum fylgja, munu áfram hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og á Ísafirði. Í tilkynningum vegna þeirra breytinga kom fram að í ljósi langrar reynslu sýslumannsembættanna af innheimtu ýmissa opinberra gjalda og góðs árangurs innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, væri verkefnið best staðsett hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra. Ráðherra heimsótti einnig starfsstöð embættisins á Sauðárkróki, heilsaði upp á starfsfólk og kynnti sér starfsemina þar, en frá þeirri starfsstöð starfrækir embættið m.a. annað sérverkefni sitt er varðar framkvæmd laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra
Að lokinni heimsókn til sýslumanns á Sauðárkróki var stutt að fara í hinn enda sama húss og banka upp á lögreglustöðinni hjá Birgi Jónassyni, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra og hans fólki. Hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra starfa 25 manns og þar af 21 lögreglumaður. Síðan í vor hefur sérstakur almannavarnarfulltrúi starfað hjá embættinu og með haustinu bættist við afbrotavarna- og forvarnarfulltrúi. Lögreglustöðvarnar eru þrjár, á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga og samtals eru fimm merktar útkallsbifreiðar í notkun. Íbúar í lögregluumdæminu eru um 7.400, umdæmið er 9.520 ferkílómetrar að flatarmáli og lengd vegakerfisins eru rúmir 2.800 km. Í kynningu Birgis lögreglustjóra fyrir ráðherra kom fram að hjá embætti hans hefur mikið þróunarstarf verið unnið varðandi stjórnun og stefnumótun og sömuleiðis unnið samkvæmt hugmyndafræði stöðugra umbóta. Að mati lögreglustjórans eru ýmsar áherslur og ytri áskoranir í löggæslu um þessar mundir svo sem rannsókn á fjölþjóðlegum glæpum á borð við netbrot. Á innlendum vettvangi nefndi Birgir aukna sjálfvirkni í hraðaeftirliti. Annað atriði sem hann kom inn á var fyrirbyggjandi löggæsla og afbrotavarnir en með auknum fjárveitingum sem veittar voru á þessu ári hefur afbrotavarna- og forvarnafulltrúi tekið til starfa hjá embættinu eins og áður sagði.
Héraðsdómur Norðurlands vestra
Að loknum athyglisverðum fundi með lögreglunni á Sauðárkróki gekk ráðherra yfir í héraðsdóm Norðurlands vestra sem staðsettur er við sömu götu. Þar tók á móti ráðherra Halldór Halldórsson dómstjóri ásamt Védísi Elfu Torfadóttur dómritara héraðsdóms Norðurlands vestra og kynnti dómstjóri starfsemi dómstólsins fyrir ráðherra.
Sjá nánar: Hér
Mynd/aðsend