Á fundi formanna stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi og haldinn var á föstudag var ákveðið að birta drög að frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til samráðs við almenning í samráðsgátt stjórnvalda. Um er að ræða frumvarp um nýtt ákvæði um íslenska tungu og er almenningi gefin kostur á að senda inn umsögn við efni ákvæðisins.
Frumvarpið verður til umsagnar í samráðsgáttinni til 25. maí nk.
Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þetta frumvarp sem hér er birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þess í samráðsgátt stjórnvalda.
Áréttað er að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi
Drög að stjórnarskrárákvæði um íslenska tungu