Neytendur er greitt hafa með greiðslukorti fyrir vöru eða þjónustu sem var eða mun ekki vera veitt, eiga endurkröfurétt (e. chargeback) ef ástæðu vanefnda má rekja til seljanda. Þetta á t.d við ef flugi eða pakkaferð er aflýst af hálfu seljanda segir á vefsíðu Neytendasamtakanna.

Félagsmenn Neytendasamtakanna geta haft samband við samtökin og fengið frekari upplýsingar og aðstoð, sé þess óskað. Álag á símkerfið er mikið um þessar mundir og eru félagsmenn hvattir til að senda tölvupóst (ns@ns.is) með nafni, símanúmeri og hvað málið varðar. Sértu félagsmaður, verður haft samband við þig eins fljótt og auðið er. Hægt er að skrá sig hér.

Korthafi þarf einungis að sýna fram á það að vara eða þjónustu hafi ekki verið eða verði ekki afhent til að eiga endurkröfurétt. Samkvæmt kortafyrirtækjum á þetta þó ekki við um greiðslur til ferðaskrifstofa er komnar eru í þrot. í þeim tilfellum þarf fyrst að sækja endurgreiðslu úr tryggingarsjóði ferðaskrifstofa. Neytandi þarf þá að sýna fram á að hann hafi sótt um endurgreiðslu og verið hafnað að hluta eða öllu leyti til að eiga rétt á endurgreiðslu frá viðkomandi kortafyrirtæki.

Gæta þarf að því að sækja þarf um endurkröfu innan 120 daga frá því að staðfest er að vara eða þjónustu verður ekki afhent. Sótt er um endurgreiðslu hjá útgefanda kortsins sem í flestum tilvikum er banki.