Á 649 fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lögð fram greinargerð Vegagerðarinnar vegna forathugunar á nýjum jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta.

Greinargerðin er unnin í framhaldi af fjárveitingu Alþingis til rannsókna sem voru í samgönguáætlun vegna áranna 2017 og 2018. Rannsóknin var unnin á árunum 2018 og 2019 og lokið við framlagða greinargerð í mars 2020, eftir að bæjarstjóri hafði gengið eftir málinu.

Í greinargerð Vegagerðarinnar er lagt til að ný göng liggi úr botni Hólsdals Siglufjarðarmegin að rótum Skælings á móts við Lambanes í Fljótum, lengd gangna er áætluð 5,2 km með vegskálum.

Bæjarráð fagnar framkominni greinargerð vegna forathugunar á jarðgöngum frá Siglufirði yfir í Fljót og leggur ríka áherslu á að áfram verði haldið rannsóknum og í framhaldinu hönnun þessa mikilvæga samgöngumannvirkis.

Bæjarstjóra falið að koma sjónarmiðum bæjarráðs á framfæri við Vegagerðina og þingmenn kjördæmisins og vinna áfram að málinu.

Siglufjarðarskarðsgöng – Skoða greinargerð á forathugun: HÉR

 

Skjáskot: úr greinargerð