Dúettinn skipa hjónin Sigríður Hulda Arnardóttir söngkona og Brynjólfur Brynjólfsson laga- og textasmiður.
Þau búa í Eyjafirði.

Lagið heitir “Alveg síðan” og er komið í spilun á FM Trölla auk þess sem hægt er að hlusta á það á Spotify.

Þetta er síðrómantískt “old style” jasslag tekið upp af Hauki Pálmasyni sem einnig leikur á trommur og hljómborð. Auk hans spila Stefán Gunnarsson á rafbassa og Hallgrímur Jónas Ómarsson á rafgítar. Lagið verður svo hluti af breiðskífu eða í það minnsta stærri útgáfu sem kemur fyrir eyru almennings seinnipart næsta vetrar.

“Við Sigga höfum fengist við tónlist frá blautu barnsbeini en aldrei hugkvæmst fyrr en nú að taka upp og gefa út okkar eigið efni í sameiningu.

Tónlistin hefur verið okkar ástríða en einnig höfum við haft atvinnu af tónlistarkennslu ásamt ýmsu öðru, auk þess sem Sigga hefur sinnt tónmenntakennslu á Akureyri og í nágrenni.

Síðasta vetur vorum við skyndilega ein eftir í kotinu og áttum margar lausar stundir þar sem sonur karls og kerlingar hélt út í heiminn (það er flutti að heiman). Þá var ekki annað til ráða en að finna upp á nýrri dægradvöl og niðurstaðan var sú að ráðast í að gefa út plötu eins og það hét einu sinni.

Við sömdum hátt í 10 ný lög og jafnmarga texta og áttum 2-3 gamla smelli í handraðanum. Við erum í óða önn að taka upp þessar vikurnar og mánuðina undir styrkri stjórn Hauks Pálmasonar og útgáfutónleikar verða í Hofi 15. mars 2024 ef áætlanir standast.

Við erum ekki búin að ákveða hvort það verði vínill, cd, hljómsnælda eða bara tónlistarveitan Spotify.  Þetta er allt að fæðast þessa dagana, til dæmis kom Sigga með nafn á dúettinn í gær “Bóndi og Kerling” í höfuðið á tignarlegum fjöllum hér vestan megin í Eyjafirði.

Hvað tekur við eftir útgáfutónleika mun tíminn leiða í ljós en við verðum að reyna að fylgja þessu eftir og reyna að leyfa einhverjum að heyra í okkur “læf” en ekki bara á fésbók eins og hingað til.”

Bobbi og Sigga (Brynjólfur Brynjólfsson og Sigríður Hulda Arnardóttir) 


Lagið á Spotify


Mynd: aðsend