Stjórn Neytendasamtakanna kallar eftir því að hagsmunir neytenda séu í forgrunni í efnahagsaðgerðum stjórnvalda. Aðgerðir stjórnvalda hafa hingað til aðallega snúist um að aðstoða fyrirtæki í erfiðleikum, jafnvel með því að grafa undan réttindum neytenda. Neytendum hefur verið boðið að nýta sinn eigin lífeyrissparnað til fasteignakaupa en ljóst er að sú leið gagnast aðeins fáum og síst þeim sem minnst hafa milli handanna. Neytendasamtökunum hafa borist fyrirspurnir frá fjölmörgum lántakendum sem óttast að geta ekki staðið í skilum vegna tekjumissis. Skuldavandi einstaklinga getur dýpkað kreppuna og gert afleiðingar hennar langvinnari.
Neytendasamtökin skora á íslensk stjórnvöld og lánastofnanir að gera eftirfarandi ráðstafanir, í samræmi við tillögur Evrópsku neytendasamtakanna (BEUC):
- Lántakendur í fjárhagsvanda eigi skýlausan rétt á greiðslufresti í að minnsta kosti sex mánuði.
- Réttur til greiðslufrests nái til allra tegunda neytendalána veðtryggðra og óveðtryggðra, þar á meðal húsnæðislána, bílalána, neyslulána, yfirdráttar og greiðslukortalána.
- Greiðslufrestur nái bæði til afborgana höfuðstóls og vaxta.
- Á meðan greiðsluhléi stendur beri lán ekki vexti.
- Skilyrði fyrir greiðslufresti séu ekki of þröng, til að útiloka ekki að neytendur í viðkvæmri stöðu nýti sér þennan rétt. Neytendasamtökin komi að útfærslu skilyrða.
- Greiðslufrestunarferlið sé hraðvirkt, vandkvæðalaust og ókeypis.
- Greiðslufrestun hafi ekki neikvæð áhrif á lánshæfismat til framtíðar.
- Bann sé lagt við framsali krafna til þriðja aðila (innheimtumanna skulda) sem og við nauðungarsölum á meðan COVID-19 kreppan gengur yfir.
Stjórn Neytendasamtakanna óskar eftir samtali Neytendasamtakanna, stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og annarra sem hagsmuna eiga að gæta um leiðir til að minnka áhrif kreppunnar á almenning.