Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að einfalda fyrirkomulag tilvísana fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Drög að reglugerðarbreytingum þessa efnis hafa verið birtar til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið er að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga.

„Ég tel að þessar breytingar séu skynsamlegar fyrir heilbrigðiskerfið og réttlætismál fyrir börn og foreldra þeirra. Við höldum í heiðri faglegar forsendur tilvísanakerfisins. Við styttum bið barna eftir mikilvægri þjónustu. Síðast en ekki síst sköpum við heilsugæslulæknum aukið svigrúm til að sinna sínum mikilvægu verkefnum í samskiptum við sjúklinga með því að létta af þeim óþarfa skriffinnsku.“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri, þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna sem nemur þriðjungi af því gjaldi sem sjúkratryggðir greiða almennt fyrir læknisheimsóknir. Gildistími tilvísunar er að hámarki eitt ár en heimilt er að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að 10 ár. Tilvísun heilsugæslulæknis er áskilin fyrir alla þjónustu sérgreinalækna. Þetta felur m.a. í sér að ef barn hefur fengið tilvísun til sérgreinalæknis sem telur barnið þurfa þjónustu læknis í annarri sérgrein þarf að leita aftur til heilsugæslulæknis eftir tilvísun. 

Helstu breytingar:

  • Sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður fellt brott.
  • Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott.
  • Bráða- og vaktþjónusta barnalækna verður undanskilin tilvísunum frá heilsugæslulækni og sömuleiðis þjónusta augnlækna og kvensjúkdómalækna. Þjónustan verður gjaldfrjáls þótt krafa um tilvísun heilsugæslulæknis verði felld brott.
  • Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni.
  • Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem nú er 10 ár verður lengdur og getur gilt allt þar til barn nær 18 ára aldri.
  • Heimild verður veitt hjúkrunarfræðingum til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra.
  • Gerð verður krafa um að tilvísanir skuli færðar í miðlæga sjúkraskrá. Hingað til hefur aðeins verið kveðið á um að þær skuli „að jafnaði“ vera á rafrænu formi.

Áfram verður unnið að hagræðingu og skilvirkni í samvinnu við lækna, sem og mat lagt á þessar breytingar og þá hvort frekari breytinga sé þörf í samráði við félög lækna og stofnanir.

Áformaðar breytingar hafa verið kynntar fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sjúkratryggingum Íslands og fagfélögum heimilislækna og barnalækna og eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Mynd/Stjórnarráðið