Eins og fram kom í frétt á Trölli.is í lok nóvenber s.l. og flestum er kunnugt sem til þekkja, lét Gunnar I Birgisson af störfum sem bæjarstjóri Fjallabyggðar um mánaðamótin nóvember-desember. Samkvæmt upplýsingum sem Trölli.is fékk hjá forseta bæjarstjórnar á þeim tíma, og fram kemur í fréttinni, var stefnt að því að auglýsa stöðu bæjarstjóra eftir áramótin.

Trölli.is hefur fengið fyrirspurnir frá lesendum um málið og var haft samband við Fjallabyggð.

Trölli sendi eftirfarandi fyrirspurn til Fjallabyggðar:

Við á Trölla.is viljum spyrja út í hvað sé að frétta varðandi ráðningu á bæjarstjóra Fjallabyggðar? Nú eru senn liðnir tveir mánuðir síðan Gunnari I. Birgissyni fráfarandi bæjarstjóra var gert að láta af störfum. Þegar fréttir bárust af því að Gunnar I. Birgisson væri hættur var okkur tjáð af Ingibjörgu G. Jónsdóttur forseta bæjarstjórnar að það ætti að auglýsa eftir bæjarstjóra eftir áramótin. Höfum einnig verið að fá póst frá bæjarbúum sem eru að spyrja þessara spurninga.

Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, starfandi bæjarstjóri, svaraði með því að þakka fyrirspurnina en sagði einnig að því miður gæti hún ekki svarað þessu.

Þá var haft samband við Ingibjörgu G. Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar, og svar hennar var að ákvörðun liggur ekki fyrir um ráðningu bæjarstjóra, en málið er í vinnslu. Aðspurð gat hún ekki svarað því að svo stöddu hvort til standi að auglýsa stöðuna.

Helgi Jóhannsson, varamaður í bæjarstjórn Fjallabyggðar, skrifaði á facebook síðu sína þann 23. janúar:
Nú eru að verða tveir mánuðir síðan Gunnar Birgisson lét af störfum sem bæjarstjóri í Fjallabyggð. Í kjölfarið kom fram hjá meirihlutanum í Fjallabyggð að auglýsa ætti starfið. Ekkert bólar á auglýsingu, alla vega er hún ekki opinber. Kannski eru vandamál á milli flokkana í meirihlutanum, ekki allir sammála um hvað á að gera ? En hvað um það, mér finnst skrítið hvað langur tími er liðinn og dagar, vikur og mánuðir líða, ekkert að frétta. Gleymum því ekki að bæjarstjóri er bæjarstjóri ALLRA íbúa Fjallabyggðar, ekki bara meirihlutans.
(birt með leyfi höfundar)

Mynd: Núverandi bæjarstjórn Fjallabyggðar á sínum fyrsta fundi.