Þrátt fyrir að hægst hafi á lífinu í kjölfar aukningu Covid-19 smita er enn mikið af ferðamönnum sem koma við á Siglufirði, njóta þeir þess sem bærinn hefur upp á að bjóða og stoppa mislengi við.
Eitt að því sem bærinn skartar eru glæsileg söfn og setur eins og Ljóðasetur Íslands, Síldarminjasafnið, Þjóðlagasetrið og Saga-Fotografica.
Eitthvað hafa ferðamenn verið að villast því alloft hefur komið fyrir að Bergþór Morthens sem á fallega uppgert hús á Siglufirði hefur fengið óboðna gesti inn á gafl hjá sér.
Bergþór sem búsettur er í Gautaborg er nýkominn heim og dvelur nú í húsi sínu í fimm daga heimkomusóttkví.
Á mánudaginn þegar hann hafði það náðugt á salerninu var kallað inn um dyrnar “Hello! Is this the museum”? hann brást vel við þessu sem oftar, sagði ferðamennina hafa verið hina vinalegustu og spjallaði við þá góða stund og vísaði þeim á safnið sem þeir hugðust heimsækja.