Ljóðahátíðin Haustglæður er á blússandi siglingu.

Í gær komu nemendur úr 8. og 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga til að taka þátt í hinni árlegu ljóðasamkeppni hátíðarinnar. Til að hjálpa til við andagiftina hafði verið sett upp sýning af listaverkum eftir starfsfólk og fyrrverandi nemendur MTR og notuðu nemendur grunnskólans myndirnar sem kveikjur að ljóðum.

Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðasetursins, veitti nemendum góð ráð í ljóðagerðinni áður en haldið var af stað og alls urðu til um 60 ljóð. Í dag mæta nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar til leiks og síðan tekur dómnefnd við að meta afurðirnar.

Verðlaunaafhending verður svo fljótlega í desember á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði.

Verðlaunaljóðin verða birt á facebooksíðu Ljóðasetursins þegar þar að kemur.

Mynd/Ljóðasetur Íslands