Átján manna hópur nemenda og kennara eru þessa viku í MTR, þrettán nemendur og fimm kennarar frá Eistlandi og Lettlandi. Hér sameinast þau fimm nemendum MTR en nokkrir þeirra fóru til Tallin í september í fyrra til að vinna með sama hópi.

Verkefnið sem þessi hópur vinnur að nefnist DRIL, eða Digital Routes in Intelligent Learning og fjallar um að læra og vinna saman yfir netið og með margvíslegum verkfærum en ekki síður að kynnast menningu og sögu landanna.

í vikunni fór allur hópurinn m.a. í gönguferð á Ósbrekkusand þar sem þau spreyttu sig á að skrifa nöfnin sín í sandinn með rúnaletri. Í gær var haldið í Mývatnssveit og í dag á Síldarminjasafnið á Siglufirði.

Héðan fer svo allur hópurinn á föstudag áleiðis til Ventspils í Lettlandi sem er sjávarbær á vesturströnd Lettlands. Fiskveiðar og strandmenning er einmitt ein tengingin sem unnið er með en einnig saga landanna og þá er verið að horfa til arfleifðar norrænna manna í Eystrasaltslöndunum.

Nemendur og kennarar skólans eru mikið á faraldsfæti þessa dagana því einn hópur er í námsferð á Ítalíu og annar heldur til Tékklands í næstu viku. Þetta stafar af því að öll erlend verkefni hafa frestast vegna heimsfaraldurs og því er verið að ljúka þeim fyrir sumarið.

Forsíðumynd: Rúnaskrift á Ósbrekkusandi.
Ljósm. SMH.


Skoða á vef Menntaskólans á Tröllaskaga