Íbúar Skálarhlíðar og eldri borgarar á Siglufirði eru afar ósáttir við bæjaryfirvöld vegna lokunar hárgreiðslu- og snyrtistofunnar í Skálarhlíð.

Snyrtistofan hefur verið starfrækt frá opnun Skálarhlíðar og var í upphafi gjöf Kvenfélagsins Vonar til íbúa hússins.

Ekki var haft samráð við íbúa Skálarhlíðar né félag eldri borgara þegar snyrtistofan var fjarlægð og kom þetta fólki algjörlega í opna skjöldu. Snyrtistofan hefur verið starfrækt frá því að Skálarhlíð var tekin í notkun.

Það hefur enginn hjá Fjallabyggð svarað fyrir þessa ákvörðun, það sem fer helst fyrir brjóstið á fólki er að engin tilraun hefur verið gerð til að leysa málið á farsælan hátt og finna aðra aðstöðu til að bjóða upp á þessa sjálfsögðu þjónustu sem almennt er í samsvarandi íbúðarkjörnum. Þess má einnig geta að fjölmargir vistmenn á sjúkrahúsinu hafa nýtt sér aðstöðuna.

Á aðalfundi eldri borgara Siglufirði sem haldinn var 10. febrúar 2019 var gerð eftirfarandi ályktun Aðalfundur félagsins ítrekar, sem áður hefur komið fram af hálfu félagsins, ríka þörf á að fjölga þjónustuíbúðum til útleigu í Skálarhlíð með viðbyggingu, eitt dæmi um þá knýjandi þörf er að þjónusturými hefur verið fjarlægt úr húsinu svo koma megi þar fyrir íbúð”.

Lokunin kom ekki aðeins íbúum Skálarhlíðar að óvörum, þær sem störfuðu á snyrtistofunni fengu fregnir af lokunni þegar einn af smiðunum bað þær að koma og fjaraðlæga dótið sitt.

Hafa eldri borgarar einnig áhyggjur af því hvað verður um föndur aðstöðuna sem er til staðar á sjúkrahúsinu, fyrirhugað er að breyta því húsnæði og að sú aðstaða fari á sama hátt og snyrtistofan, út í veður og vind.

 

Hér er verið að útbúa íbúð í Skálarhlíð úr þjónusturýminu sem ætlað var undir þjónustu við íbúa. Enginn frá Fjallabyggð hefur sýnt áhuga á að leysa málið á farsælan hátt svo hægt sé að bjóða upp á þessa sjálfsögðu þjónustu, sérstaklega til þeirra sem hafa ekki tök á því að fara út í bæ eftir henni

 

Félag eldri borgara hefur reynt að fá svör við því hver tók þessa ákvörðun og hvað á að gera til að leysa húsnæðisvanda snyrtistofunnar, án árangurs