Mynd: Birgir Karlsson

Eldur í Húnaþingi er hátíð í Húnaþingi vestra sem hefur verið haldin árlega allt frá árinu 2003. Fyrst um sinn var hátíðin unglistahátíð. Þá var hún bæði skipulögð og framkvæmd af ungu fólki í Húnaþingi vestra. Með tímanum fékk hátíðin á sig fjölskyldu- og bæjarhátíðarblæ og hefur dagskráin verið breytileg ár frá ári en hún ræðst oftar en ekki af áhugasviði stjórnenda.

Hátíðin Eldur í Húnaþingi var haldin í 20. sinn dagana 20. til 24. júlí síðastliðna. Nú er hátíðinni lokið þetta árið og heppnaðist hún vel að sögn aðstandenda.
En í þessum pistli verður kíkt aftur í tímann.
Árið 2013 fór hátíðin Eldur í Húnaþingi fram ellefta árið í röð. Það ár, eins og nánast öll árin frá upphafi, var rekin útvarpsstöð sem hefur heitið einhverjum nöfnum, þó aðallega Útvarp Hvammstangi og svo seinna FM Eldur.

Merki útvarpsstöðvarinnar. Höfundur: Esi Jóhannes Gunnar.

Útvarpsstöð þessi hefur í gegnum árin verið staðsett á nokkrum stöðum á Hvammstanga. Fyrstu árin var hún til húsa að Norðurbraut 1 en fluttist svo á aðra staði svo sem Meleyri, neðstu hæð Félagsheimilisins og Höfðabraut 6. Hér verður einblínt á árið 2013 en það ár var útvarpsstöðin staðsett á Skólavegi 2. Nánar tiltekið í Grunnskólanum á Hvammstanga.
Úr skólastofu einni í suðvestur horni skólans, á annari hæð, er ákaflega gott útsýni yfir góðan hluta bæjarins, og þá staði þar sem mest fer fram á hátíðinni.
Þaðan sést vel niður á Bangsatún, Brúarhvamm, í Kaupfélagið og að sjálfsögðu niður að Félagsheimili.

Kona í Brúarhvammi. Mynd: Páll Sigurður Björnsson.

Brúarhvammur er þessi fallegi stallur sunnan við Kaupfélagið á Hvammstanga. Til vinstri við miðja mynd, hægra megin við hvíta skiltið með rauða rammanum, má sjá í glugga kennslustofunnar hvar útvarpsstöðin var staðsett árið 2013.

Því var tilvalið að koma upp útvarpsstöðinni þar uppfrá. Sótt var um leyfi hjá skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra sam gaf leyfi um leið. Það þýddi að útsendingamastur, sem sendir út allt efni stöðvarinnar, var komið fyrir uppi á þaki skólans í góðri “sjónlínu” við hlustendur.
Nú er þetta skrifað eins og að lesandi viti nokkuð vel hvernig Hvammstangi lítur út og liggur landfræðilega, en þeir lesendur sem ekki vita það verða bara að myndskreyta í huganum við lesturinn.

Eftir að stöðinni hafði verið komið upp með góðri og skemmtilegri aðstoð rafvirkjans Helga S. Ólafssonar og starfsmönnum hjá Tengli ehf var komið að því að prófa stöðina. Hún virkaði vel í útvarpstækjum þeirra sem voru fengnir til að hlusta, og láta orðið spyrjast út um að útvarpsstöðin væri enn og aftur komin í loftið.

Til að búa til dagskrá á útvarpsstöð og koma henni í loftið þarf nokkrar græjur. Þar má nefna, FM sendi og útsendingamastur ásamt fylgihlutum, mixer og hljóðnema og allt tengt því, dágóðan slatta af allskonar snúrum, eina tölvu í það minnsta, helst þrjár, betra samt ef hægt er að hafa þær fjórar, internettengingu og símtæki til að hringja í og úr.

Plöturspilari í vinnu í Útvarpi Hvammstanga. Mynd: Páll Sigurður Björnsson.

Einnig þarf góðan aðgang að tónlistarsafni hvort sem það er á netinu eða á hörðum diskum, geisladiskum, plötum nú eða kasettum sem einnig var spilað af á þessari stöð. Þetta ár, 2013, var fólk almennt ekki komið með aðgang að Spotify en þó var hægt að spila tónlist af netinu; einstaka lag af YouTube en svo var mikið spilað af tonlist.is.

Mynd: Birgir Karlsson.

Myndin hér að ofan sýnir útvarpsstjóra Útvarps Hvammstanga árið 2013 hvar hann teygir þarna hægri hönd upp í loft til að ná góðu sambandi við þráðlausan móttakara sem staðsettur var í skólabyggingunni um 170 metrum frá. Með enn meiri hjálp rafvirkjans góða Helga, sem fólst í því að “skrúfa aðeins upp aflið í græjunum” eins og sagt er stundum í þessum bransa, var hægt að ganga töluvert um bæinn, vopnaður einungis þessum þráðlausa sendi og hljóðnema til að taka viðtöl við gesti og gangandi sem send voru út beint og í rauntíma. Það féll vel í eyru hlustenda, en aðallega í góðan jarðveg hjá þáttarstjórnendum þann þáttinn.

Enginn hörgull var á dagskrárgerðarfólki þetta árið. Útvarpsstjóri sá um nokkra klukkutíma á dag þessa 6 daga sem stöðin sendi út. Svo komu við sögu bræðurnir Jón Þór og Guðmundur Helgasynir. Einnig Sigurvald Ívar Helgason. Sigurvald er þó hvorki bróðir Jóns né Guðmundar.

Þáttarstjórnendurnir Sigurvald Ívar og Jón Þór Helgasynir. Þeir stjórnuðu þættinum Helgasynir daginn eftir. Mynd: Páll Sigurður Björnsson.


Nokkrir einstaklingar voru með þætti þetta árið. Því miður finnst ekki skjalfest hverjir þeir einstaklingar voru og ef minni mitt brestur ekki verulega voru þættir þeirra um einnar klukkustundar langir en af ýmsum gerðum. Hugsanlega voru þetta um 4 til 6 einstaklingar sem voru með þætti þetta árið en fleiri komust varla að, einkum vegna eingingirni útvarpsstjóra, sem var og er enn helsjúkur útvarpsáhugamaður þó að í grunnin megi kannski segja að áhugi hans liggi mest í tæknimálum svona apparats sem útvarpsstöð er.

Það getur þurft mikið af græjum til að halda úti útvarpsstöð. Hér sést í hluta þess sem þurfti þetta árið. Mynd: Páll Sigurður Björnsson.

Ýmislegt þarf að stilla, og svo fínstilla við gangsetningu á útvarpsstöð. Því var Sigurvald fenginn til að fá eins gott hljóð úr græjunum og þær buðu upp á á þessum tíma. Heppnaðist það mjög vel.

Sigurvald stillir compressortölvuna. Mynd: Páll Sigurður Björnsson.

Þetta var stutt ágrip úr sögu Útvarps Hvammstanga.
Seinni ár kom svo Gunnar Smári með FM Trölla og sendi út tónleika og aðra viðburði af Eldinum í beinni útsendingu á hlustunarsvæði FM Trölla og á netinu.