Eigendur Hrauna í Fljótum í Skagafirði hafa samþykkt kauptilboð félagsins Eleven Experience í jörðina.
Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri Green Highlander, staðfestir þetta. Þá hafi Eleven Experience keypt jörðina Nefsstaði. Green Highlander rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum fyrir hönd Eleven Experience.
Sl. laugardag birtist fréttaskýring í Morgunblaðinu um hótelið á Deplum og kaup Eleven Experience á jörðum í Fljótum.
Kaupa ekki bæi í búskap
Haukur vill af því tilefni árétta að félagið kaupi ekki bæi í búskap og byggð. Til dæmis hafi Hreppsendaá í Ólafsfirði verið eyðibýli.
„Það var búskapur á Deplum þegar við keyptum jörðina. Deplar fóru hins vegar á sölu eftir andlát maka þáverandi ábúanda. Þá var keyptur skiki af landinu Lundur. Knappsstaðir voru ekki í búsetu. Þar er kirkja og lítið hús sem er verið að gera upp. Í Stóru-Brekku var ekki búskapur en þar bjó fólk sem vildi selja. Steinavellir í Flókadal eru jörð í eyði. Í Haganesi keypti félagið gamla beitiskúra,“ segir Haukur um hluta þessara kaupa.
Alþjóðlegt fyrirtæki
Spurður um markmið félagsins með þessum jarðakaupum bendir Haukur á eðli starfseminnar.
„Eleven Experience er alþjóðlegt ferðaþjónustufyrirtæki með starfsemi í fimm löndum, þar á meðal hér á Íslandi. Við erum afar stolt af uppbyggingunni á Deplum og nærliggjandi svæðum á undanförnum árum. Það hefur lengi verið rætt um það hér á landi að það þurfi að dreifa ferðamönnum betur um landið. Við teljum það forréttindi að fá að leyfa viðskiptavinum okkar að njóta þeirrar náttúru og landslags sem Fljótin, Tröllaskaginn og svæðin hér í kring hafa upp á að bjóða.
Mikið umfang fylgir starfseminni á Deplum. Við bjóðum þar meðal annars upp á veiði, gönguferðir, vélsleðaferðir, kajakferðir, hjólaferðir, jóga og vellíðunarmeðferðir. Frá mars og fram í júní er einnig boðið upp á þyrluskíðaferðir frá Deplum.
Þær jarðir sem félagið hefur fjárfest í hafa ýmist verið komnar í eyði eða bændur við það að bregða búi. Hluti af því er nýttur fyrir starfsfólk Depla, en á álagstímum eru allt að 40 starfsmenn á svæðinu,“ segir Haukur og bendir á öryggisþáttinn.
„Sem kunnugt er getur verið hættulegt að keyra um dalinn á veturna og því teljum við betra að bjóða starfsmönnum upp á aðstöðu á svæðinu. Jafnframt höfum við keypt húsnæði sem nýtt er undir geymslu á ökutækjum og öðrum tækjum, ýmsum afþreyingarbúnaði og þannig mætti áfram telja.
Í stuttu máli má segja að eini tilgangurinn með kaupum á jörðum, eða einstaka svæðum sé sá að halda áfram þeirri öflugu uppbyggingu sem staðið hefur verið að á síðustu árum og tryggja að þetta svæði, sem áður var að mestu komið í eyði, verði áfram góður valkostur fyrir ferðaþjónustu hér á landi.“
Ekki keypt vegna veiðinnar
Haukur segir aðspurður ekki horft til veiðiréttinda við þessi kaup.
„Við höfum ekki fjárfest í jörðunum vegna veiðiréttinda. Það eiga 32 aðilar hlut í Fljótaá og Eleven Experience er með eitt atkvæði í þeim eigendahóp. Þegar viðskiptavinir okkar óska eftir því að fá að veiða kaupum við „stangir“ eins og allir aðrir ef það er á annað borð laust pláss. Þá er verslað við veiðileyfasala/leigutaka og leiðsögumenn fengnir frá svæðinu.“
Spurður hvort félagið hafi keypt fleiri jarðir en hér eru taldar upp segir Haukur að það hafi nýlega keypt land Nefsstaða við Stífluvatn í Fljótum. „Það skal tekið fram að hvorki hefur verið búskapur né ábúendur á Nefsstöðum. Jafnframt er ekki húsakostur til staðar né neinn veiðiréttur,“ segir Haukur.
Hjón sem hrifust af Íslandi
Samkvæmt Creditinfo er félagið Sun Ray Shadow í Hollandi endanlegur eigandi félagsins Fljótabakki, sem er skráður eigandi jarðanna.
Spurður hver, eða hverjir, séu eigendur Sun Ray Shadow segir Haukur að „líkt og Eleven Experience sé Sun Ray Shadow í eigu bandarísku hjónanna Chad og Ellen Blake Pike og fjölskyldu þeirra“.
„Þau komu hingað til lands fyrir rúmum 15 árum og það var Orri heitinn Vigfússon sem kynnti þau fyrir því fallega landslagi sem finna má í Fljótunum og á Tröllaskaga. Í störfum sínum hafa þau hjónin lagt mikla áherslu á náttúruvernd og er Chad Pike m.a. stjórnarformaður verndarsjóðsins North Atlantic Salmon Fund, sem stofnaður var til að styðja Orra Vigfússon í verndun Norður-Atlantshafslaxins.“
Þá segir Haukur aðspurður að rúmlega 50 manns starfi hjá fyrirtækinu yfir árið, þar af um 35 Íslendingar. Stór hluti íslensku starfsmannanna búi á Norðurlandi.
Hann segir trúnað ríkja um veltu móðurfélags Depla. Eleven Experience sé einkahlutafélag sem ekki er skráð á markað. Uppgjör félagsins séu því ekki birt opinberlega.
Loks bendir Haukur á að fjölmörg fyrirtæki njóti góðs af starfseminni.
„Eleven Experience hefur gert miklar skuldbindingar sem miða að því að fá ferðamenn norður í land. Þetta er mikill styrkur fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Fyrir innanlandsflugið, Drangeyjarfeðga, hestaleiguna á Langhúsum, bjórspaið [á Árskógssandi], hvalaskoðunarfyrirtækin, kaffihúsin á Siglufirði og ferðaþjónustuna á Akureyri, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Haukur.
Frétt: mbl.is