Eig­end­ur Hrauna í Fljót­um í Skagaf­irði hafa samþykkt kauptil­boð fé­lags­ins Eleven Experience í jörðina.

Hauk­ur B. Sig­mars­son, fram­kvæmda­stjóri Green Highland­er, staðfest­ir þetta. Þá hafi Eleven Experience keypt jörðina Nefsstaði. Green Highland­er rek­ur lúx­us­hót­elið Depl­ar Farm í Fljót­um fyr­ir hönd Eleven Experience.

Sl. laug­ar­dag birt­ist frétta­skýr­ing í Morg­un­blaðinu um hót­elið á Depl­um og kaup Eleven Experience á jörðum í Fljót­um.

Kaupa ekki bæi í bú­skap

Hauk­ur vill af því til­efni árétta að fé­lagið kaupi ekki bæi í bú­skap og byggð. Til dæm­is hafi Hrepp­sendaá í Ólafs­firði verið eyðibýli.

„Það var bú­skap­ur á Depl­um þegar við keypt­um jörðina. Depl­ar fóru hins veg­ar á sölu eft­ir and­lát maka þáver­andi ábú­anda. Þá var keypt­ur skiki af land­inu Lund­ur. Knappsstaðir voru ekki í bú­setu. Þar er kirkja og lítið hús sem er verið að gera upp. Í Stóru-Brekku var ekki bú­skap­ur en þar bjó fólk sem vildi selja. Steinavell­ir í Flóka­dal eru jörð í eyði. Í Haga­nesi keypti fé­lagið gamla beitiskúra,“ seg­ir Hauk­ur um hluta þess­ara kaupa.

Alþjóðlegt fyr­ir­tæki

Spurður um mark­mið fé­lags­ins með þess­um jarðakaup­um bend­ir Hauk­ur á eðli starf­sem­inn­ar.

Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri Green Highlander.

Hauk­ur B. Sig­mars­son, fram­kvæmda­stjóri Green Highland­er. Mynd/mbl.is

Hauk­ur B. Sig­mars­son, fram­kvæmda­stjóri Green Highland­er.

„Eleven Experience er alþjóðlegt ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki með starf­semi í fimm lönd­um, þar á meðal hér á Íslandi. Við erum afar stolt af upp­bygg­ing­unni á Depl­um og nær­liggj­andi svæðum á und­an­förn­um árum. Það hef­ur lengi verið rætt um það hér á landi að það þurfi að dreifa ferðamönn­um bet­ur um landið. Við telj­um það for­rétt­indi að fá að leyfa viðskipta­vin­um okk­ar að njóta þeirr­ar nátt­úru og lands­lags sem Fljót­in, Trölla­skag­inn og svæðin hér í kring hafa upp á að bjóða.

Mikið um­fang fylg­ir starf­sem­inni á Depl­um. Við bjóðum þar meðal ann­ars upp á veiði, göngu­ferðir, vélsleðaferðir, kaj­ak­ferðir, hjóla­ferðir, jóga og vellíðun­ar­meðferðir. Frá mars og fram í júní er einnig boðið upp á þyrlu­skíðaferðir frá Depl­um.

Þær jarðir sem fé­lagið hef­ur fjár­fest í hafa ým­ist verið komn­ar í eyði eða bænd­ur við það að bregða búi. Hluti af því er nýtt­ur fyr­ir starfs­fólk Depla, en á álags­tím­um eru allt að 40 starfs­menn á svæðinu,“ seg­ir Hauk­ur og bend­ir á ör­ygg­isþátt­inn.

„Sem kunn­ugt er get­ur verið hættu­legt að keyra um dal­inn á vet­urna og því telj­um við betra að bjóða starfs­mönn­um upp á aðstöðu á svæðinu. Jafn­framt höf­um við keypt hús­næði sem nýtt er und­ir geymslu á öku­tækj­um og öðrum tækj­um, ýms­um afþrey­ing­ar­búnaði og þannig mætti áfram telja.

Í stuttu máli má segja að eini til­gang­ur­inn með kaup­um á jörðum, eða ein­staka svæðum sé sá að halda áfram þeirri öfl­ugu upp­bygg­ingu sem staðið hef­ur verið að á síðustu árum og tryggja að þetta svæði, sem áður var að mestu komið í eyði, verði áfram góður val­kost­ur fyr­ir ferðaþjón­ustu hér á landi.“

Ekki keypt vegna veiðinn­ar

Hauk­ur seg­ir aðspurður ekki horft til veiðirétt­inda við þessi kaup.

„Við höf­um ekki fjár­fest í jörðunum vegna veiðirétt­inda. Það eiga 32 aðilar hlut í Fljótaá og Eleven Experience er með eitt at­kvæði í þeim eig­enda­hóp. Þegar viðskipta­vin­ir okk­ar óska eft­ir því að fá að veiða kaup­um við „stang­ir“ eins og all­ir aðrir ef það er á annað borð laust pláss. Þá er verslað við veiðileyf­a­sala/​leigu­taka og leiðsögu­menn fengn­ir frá svæðinu.“

Spurður hvort fé­lagið hafi keypt fleiri jarðir en hér eru tald­ar upp seg­ir Hauk­ur að það hafi ný­lega keypt land Nefsstaða við Stíflu­vatn í Fljót­um. „Það skal tekið fram að hvorki hef­ur verið bú­skap­ur né ábú­end­ur á Nefs­stöðum. Jafn­framt er ekki húsa­kost­ur til staðar né neinn veiðirétt­ur,“ seg­ir Hauk­ur.

Hjón sem hrif­ust af Íslandi

Sam­kvæmt Cred­it­in­fo er fé­lagið Sun Ray Shadow í Hollandi end­an­leg­ur eig­andi fé­lags­ins Fljóta­bakki, sem er skráður eig­andi jarðanna.

Spurður hver, eða hverj­ir, séu eig­end­ur Sun Ray Shadow seg­ir Hauk­ur að „líkt og Eleven Experience sé Sun Ray Shadow í eigu banda­rísku hjón­anna Chad og Ell­en Bla­ke Pike og fjöl­skyldu þeirra“.

„Þau komu hingað til lands fyr­ir rúm­um 15 árum og það var Orri heit­inn Vig­fús­son sem kynnti þau fyr­ir því fal­lega lands­lagi sem finna má í Fljót­un­um og á Trölla­skaga. Í störf­um sín­um hafa þau hjón­in lagt mikla áherslu á nátt­úru­vernd og er Chad Pike m.a. stjórn­ar­formaður vernd­ar­sjóðsins North Atlantic Salmon Fund, sem stofnaður var til að styðja Orra Vig­fús­son í vernd­un Norður-Atlants­hafslax­ins.“

Mynd/Kristín Sigurjónsdóttir

Þá seg­ir Hauk­ur aðspurður að rúm­lega 50 manns starfi hjá fyr­ir­tæk­inu yfir árið, þar af um 35 Íslend­ing­ar. Stór hluti ís­lensku starfs­mann­anna búi á Norður­landi.

Hann seg­ir trúnað ríkja um veltu móður­fé­lags Depla. Eleven Experience sé einka­hluta­fé­lag sem ekki er skráð á markað. Upp­gjör fé­lags­ins séu því ekki birt op­in­ber­lega.

Loks bend­ir Hauk­ur á að fjöl­mörg fyr­ir­tæki njóti góðs af starf­sem­inni.

„Eleven Experience hef­ur gert mikl­ar skuld­bind­ing­ar sem miða að því að fá ferðamenn norður í land. Þetta er mik­ill styrk­ur fyr­ir ferðaþjón­ust­una á Norður­landi. Fyr­ir inn­an­lands­flugið, Drang­eyj­ar­feðga, hesta­leig­una á Lang­hús­um, bjór­spaið [á Árskógs­sandi], hvala­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­in, kaffi­hús­in á Sigluf­irði og ferðaþjón­ust­una á Ak­ur­eyri, svo eitt­hvað sé nefnt,“ seg­ir Hauk­ur.

Frétt: mbl.is