Ætli þær fari ekki að slaga upp í 100 þúsund heimsóknirnar að eldgosinu í Fagradalsfjalli?

Sá sem þetta skrifar heyrði af einni alveg sérstaklega athyglisverðri: Helena Sigtryggsdóttir, tæplega 98 ára Siglfirðingur, hafði farið til að skoða gosið! Og það var nægjanlegt tilefni til að slá á þráðinn til Helenu og fá frásögn hennar beint og milliliðalaust. Hún er eins og mörgum er ljóst ekkja Jóhanns Möller sem lést fyrir 24 árum – en Helena bjó á Siglufirði í nærri 60 ár.

Það var stórkostlegt að sjá þetta svona nálægt – tignarlegt barasta! En það var ekkert merkilegt þó ég færi þessa ferð, settist bara upp í þyrlu með stól og ullarteppi meðferðis og flaug svo stutta stund að eldstöðinni með tveimur af börnum mínum, Kristjáni og Ölmu, og mökum þeirra, Oddnýju og Torfa. Þyrlan lenti nálægt gosgígnum og við stoppuðum þarna í 30 mínútur. Ég gerði nú lítið annað en að sitja þarna í stólnum og njóta útsýnisins og stundarinnar.
Tildrögin að ferðinni voru þau að börnin mín gáfu mér í 95 ára afmælisgjöf þyrluflugferð yfir Reykjavík og nágrenni. Af ýmsum ástæðum varð ekki af fluginu fyrr en núna. Og þá var nú aldeilis tilefni til. Fyrst hélt ég reyndar að þau væru eitthvað að plata mig því þetta var fyrsta apríl!
En það teljast nú varla tíðindi þó ég færi þessa ferð – það var ekki svo að ég þyrfti að stýra þyrlunni, sat bara og lét fara vel um mig. Það er voða flott að fljúga þetta, og auðvelt.


Aðspurð sagðist Helena ekki hafa séð eldgos í nálægð fyrr og taldi það um leið sitt síðasta gos. Hún bað að lokum fyrir sína bestu kveðju til allra sem muna eftir henni heima á Siglufirði.

Helena um borð í þyrlunni. Oddný og Kristján til vinstri, Alma til hægri.
Ljósm: Alma Möller

Helena virðir fyrir sér gosið með þremur afkomendum sínum:
Eva Hlín, dóttir Öldu og dætur hennar Ragnhildur Edda og Bryndís Eva.
Ljósm: Alma Möller

Svona leit eldgosið út fyrir augum Helenu.
Ljósm: Alma Möller

Forsíðumynd: Jóna Möller