Frá því 2017 hafa staðið yfir viðamiklar endurbætur á leikskólalóðum Fjallabyggðar í Ólafsfirði og á Siglufirði. Áður höfðu báðar skólalóðir grunnskólans fengið sambærilegar endurbætur, sjá frétt (tengill á frétt).
Verkin voru unnin í áföngum og hófust framkvæmdir við 1. áfanga leikskólalóðarinnar á Siglufirði sumarið 2017. Annar áfangi var unnin 2018. Leikskólalóðin á Ólafsfirði var kláruð í einum áfanga sumarið 2020.
Á skólalóðunum hefur meðal annars verið komið fyrir hjólabogum, leiktækjum, vegasalti, rólum, klifur- og jafnvægistækjum. Umhverfis leiktæki var lagt gervigras sem er með mjúku undirlagi fyrir fallvörn og gerir umhverfið snyrtilegra. Þá var lýsing endurnýjuð. Sérstök ungbarnaleiksvæði voru gerð fyrir allra yngstu börnin.
Heildarkostnaður við endurgerð lóðanna er áætlaður um 100 milljónir króna og var Sölvi Sölvason aðal verktakinn í báðum framkvæmdunum.
Skólalóðirnar eru öllum aðgengilegar utan hefðbundins opnunartíma leikskólanna og eru notendur lóðanna hvattir til að ganga vel um þær og skilja ekki eftir sig rusl sem leikskólabörnum geti orðið meint af.
Nýlega hefur borið á skemmdarverkum á skólalóð grunnskólans í Ólafsfirði en afar leiðinlegt væri ef þessi fallegu og velheppnuðu leiksvæði yrðu fyrir tjóni af völdum skemmdaverka eða slæmrar umgengni. Göngum vel um og njótum þess sem vel er gert í samfélagi okkar.
Myndir/ Gunnlaugur S. Guðleifsson