Endurvinnsla glers í forgangi í frumvarpi ráðherra
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjarvöruumbúða. Verði frumvarpið að lögum felur það í sér að hægt verður að hefja endurvinnslu á einnota glerumbúðum á þessu ári. Slíkt væri mikilvægt framfaraskref og stuðlar að því að markmið um endurvinnslu glerumbúða sem falla til hér á landi verði uppfyllt.
Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að bæta umhverfi endurvinnslu og skilagjalds á umbúðir fyrir drykkjarvörur. Um er að ræða eftirfylgni með tillögum starfshóps þar sem markmið þetta var haft að leiðarljósi og felur frumvarpið í sér breytingar sem eru nauðsynlegar til að auka enn frekar skil og endurvinnslu á einnota drykkjarvöruumbúðum hér á landi.
Frumvarpið endurspeglar markmið hringrásarhagkerfisins um lágmörkun á auðlindanotkun og úrgangsmyndun og forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Í samræmi við verðlag er lögð til hækkun á skilagjaldi vegna drykkjarvöruumbúða, sem skilar sér aftur til neytenda við skil þeirra á umbúðunum til endurvinnslu.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að skilgreindur verði nýr flokkur drykkjarvöruumbúða, þ.e. umbúðir úr endurunnu, ólituðu plastefni, sem beri lægra gjald en aðrar plastumbúðir. Lægra gjald á endurunnið, ólitað plast felur í sér hvata til notkunar á endurunnu plasti til framleiðslu nýrra drykkjarvöruumbúða.
Til samræmis við markmið frumvarpsins er þar lagt til að greitt verði skilagjald og umsýsluþóknun af einnota drykkjarvöruumbúðum sem seldar eru úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu, rétt eins og gilt hefur um sölu á drykkjarvörum við komu til landsins. Einnig er lagt til að gjaldskyldan nái til sendiráða og alþjóðastofnana, sem hingað til hafa verið undanþegin frá greiðslu gjaldanna.
„Með þessu frumvarpi er stuðlað að eflingu endurvinnslusamfélags á Íslandi. Samfélag þar sem úrgangur er álitinn hráefni og þeim síðan haldið í hringrás og notuð aftur og aftur. Við stöndum okkur vel á sumum sviðum úrgangsmála en t.d. í endurvinnslu glers verðum við að gera betur. Verði þetta frumvarp að lögum mun það leiða til þess að við náum markmiðum okkur um endurvinnslu glers, en í dag vantar mikið upp á það,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Skoða á vef Stjórnarráðsins
Mynd: pexels