Í dag kjósa Íslendingar sér forseta, í framboði eru sitjandi forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson.

Forseti Íslands er þjóðhöfðingi og æðsti embættismaður lýðveldisins Íslands. Forsetinn er þjóðkjörinn til fjögurra ára í senn og er eini embættismaðurinn sem kjörinn er í beinni kosningu.

Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er forsetinn æðsti handhafi framkvæmdavaldsins og annar handhafi löggjafarvaldsins. Í reynd er þátttaka forsetans í löggjöf eða stjórnarathöfnum yfirleitt aðeins formsatriði þannig að hann hefur ekki aðkomu að efni löggjafar eða stjórnarathafna. Þó er viðurkennt að hann getur haft áhrif á stjórnarmyndunarviðræður og jafnvel skipað utanþingsstjórn ef aðstæður til þess eru uppi.

Jafnframt hefur forsetinn vald til þess að synja lagafrumvarpi frá Alþingi staðfestingar og leggja það í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu en á það hefur reynt þrisvar í sögu embættisins. Í fjarveru forsetans fara forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar saman með vald forsetans.

Flest störf forsetans eru táknræn og er stundum sagt um embættið að það eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Á meðal hefðbundinna embættisverka forsetans er að flytja þjóðinni ávarp á nýársdag, að ávarpa Alþingi við setningu þess jafnframt því sem forsetinn setur Alþingi formlega, að veita fálkaorðuna og ýmis verðlaun á vegum embættisins og félagasamtaka.

Forsetinn tekur einnig á móti erlendum þjóðhöfðingjum og öðrum hátt settum gestum í opinberum heimsóknum á Íslandi og fer sjálfur í opinberar heimsóknir til annarra ríkja. Aðsetur forseta Íslands er á Bessastöðum á Álftanesi en embættið hefur jafnframt skrifstofu í húsinu Staðastað við Sóleyjargötu 1 í Reykjavík. Afmælisdagur forsetans hverju sinni er íslenskur fánadagur.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um kosningarnar: HÉR

Heimild: Wikipedia
Mynd: af netinu