Aukaþing SSNE haldið í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit 23. september 2022 fagnar aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á þjóðhagslega arðsamar flýtiframkvæmdir í samgöngum, en fordæmir harðlega þá hugmynd að taka upp gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins, óháð staðsetningu og ástandi, til að standa undir kostnaði við framkvæmdirnar. Ef frumvarp innanríkisráðherra sem lagt var fram í Samráðsgátt stjórnvalda síðastliðið sumar yrði lagt fram og samþykkt á Alþingi óbreytt væri það tekið fyrsta skrefið í þeirri vegferð að færa okkur nær slíkri gjaldtöku. SSNE hvetur stjórnvöld til að skoða aðrar og sanngjarnari leiðir til fjármögnunar á samgöngumannvirkjum.

Með innheimtu veggjalda á þá sem fara um jarðgöng er verið að leggja gjald á notendur einnar tegundar samgöngumannvirkja þ.e. jarðgögn og láta notendur þeirra greiða fyrir samgöngubætur annars staðar á landinu. Nái þessar fyrirætlanir fram að ganga er gjaldtakan að leggjast afar þungt á nokkur byggðalög þar sem íbúar eiga verulega erfitt með að komast hjá því að nota þessi samgöngumannvirki. Þannig er þeim íbúum ætlað að greiða hærri hlutfallslegan kostnað fyrir eina tegund samgöngumannvirkja á meðan að ekki er verið að leggja gjald t.d. á brýr, mislæg gatnamót, tvöföldun vega, flugvelli, hafnir eða önnur kostnaðarsöm samgöngumannvirki.

Hvalfjarðargöng sem eru langmest eknu jarðgöng landsins, hafa þegar verið greidd upp af vegfarendum með gjaldtöku og afhent ríkinu án endurgjalds. Nú er verið að greiða upp Vaðlaheiðargöng með gjaldtöku. Önnur jarðgöng, sem eru í notkun, eru á svæðum sem búið hafa við landfræðilega einangrun.

Það er hagur allra landsmanna að samgöngur séu öruggar og góðar. Samgöngur skipta miklu máli er kemur að uppbyggingu atvinnulífs, aðgengi að þjónustu, jákvæðri byggðaþróun og lífsgæðum íbúa. Því hvetur SSNE stjórnvöld til að viðhafa faglegri vinnubrögð, betri undirbúning og meiri samvinnu við breiðari hóp hagsmunaaðila áður en farið er af stað með lagasetningu, sem getur leitt til skaðlegra áhrifa fyrir ýmsar byggðir landsins.

Mynd/ssne.is