Börn Hildar Magnúsdóttur frá Ólafsfirði sem lést 25. maí á þessu ári verða með sýningu á handverki Hildar í Arionbankahúsinu við Aðalgötu 14 í Ólafsfirði föstudaginn 6. desember 2019 kl. 20:00 – 22:00. Sýningin verður einnig opin laugardaginn 7. desember
og sunnudaginn 8. desember frá kl. 15:00 – 17:00.

Hildur Magnúsdóttir fæddist í Ólafsfirði 7. febrúar 1942 og bjó þar alla sína ævi. Hildur lést á þessu ári þann 25. maí s.l.

Ung að árum sýndi hún strax áhuga og hæfileika til að fást við saumaskap og handavinnu af ýmsum toga. Hún lærði að búa til snið og sníða í föt. Hildur saumaði fatnað á sjálfa sig og síðar á börnin sín fjögur og ömmubörnin, bæði hverdagsfatnað, spariföt og grímubúninga. Einnig saumaði hún föt á dúkkur.

Á meðan á sjúkradvöl hennar stóð á árunum 1972-1976 þá var handavinna af ýmsum toga afþreying í sjúkrastofunni, meðal annars að sauma í, hekla og prjóna dúkkuföt. Hildur sótti ýmis námskeið sem haldin voru í Ólafsfirði, til dæmis málun á keramik, tau og gler. Fjölmargir skemmtilegir og fjölbreyttir munir urðu til í gegnum árin sem skreyttu heimili þeirra Hildar og Jóhanns, eiginmanns hennar, bæði allt árið um kring sem á páskum og jólum.

Hildur var á árum áður meðlimur í saumaklúbbi þar sem vinkonurnar skiptust á að bjóða heim, eins og þekkist enn í dag. Síðar varð Hildur ein af Tíunum sem er félagsskapur kvenna í bútasaum. Á síðari árum varð bútasaumurinn, jólasokkar og kortagerð hennar helsta viðfangsefni.

Eftir Hildi liggja fjölmörg verk og stykki innan lands sem utan. Meðal annars saumaði hún veggmyndir og gaf til Hornbrekku, heimilis aldraðra, og í vallarhúsið í Ólafsfirði. Ósjaldan færðu hún og Jóhann afkomendum, ættingjum og vinum sínum að gjöf stykki sem Hildur vann að löngum stundum í saumaherberginu. Jóhann, með sínu smiðsauga, var oft sérstakur ráðgjafi í vali á efnum og samsetningu.

Sérstakt markmið Hildar var að gefa öllum barnabörnum (14) og barnabarnabörnum (20) bútasaumsteppi og jólasokka eftir sig.

Hildur Magnúsdóttir var sannur listamaður og vandvirk fram í fingurgóma og þessi yfirlitssýning á verkum hennar er óður eftirlifandi eiginmanns, barna og fjölskyldunnar til hennar. Verkin spanna nokkra áratugi og eru þversnið af arfleifð Hildar.

Eftirlifandi eiginmaður Hildar Jóhann og börn þau, Aðalbjörg, Magnús Guðmundur, Helgi og Guðrún Pálína vona að gestir sýningarinnar skynji í gegnum verk Hildar hversu einstakur listamaður og framúrskarandi manneskja var þarna á ferðinni.

Sjá viðburð: Yfirlitsýning á verkum Hildar Magnúsdóttur

Mynd: úr einkasafni