Ásdís Skúladóttir leikstjóri

Á vefsíðunni Lifðu núna segir frá því að Ásdís Skúladóttir leikstjóri var nýlega á Höfn í Hornafirði og talaði þar á málþingi sveitarfélagsins og Félags eldri Hornfirðinga, undir yfirskriftinni, Er gott að eldast? Hún fjallaði meðal annars um Gráa herinn, baráttu eldri borgara fyrir bættum kjörum og fjölmörg mál sem þá varðar.

Grípum hér niður í skemmtilegar hugleiðingar hennar um ellina.

„Það má kannski segja að  stríðsárakynslóðin sé komin á kreik eða eins og hún er stundum kölluð ´68 kynslóðin. Sú kynslóð lifði það að í Evrópu logaði allt í illdeilum og átökum, Kúbudeilan, óttinn við kjarnorkustyrjöld, stríðið í Víetnam, Marteinn Lúther skotinn, John F. Kennedy skotinn, Robert Kennedy skotinn, námsmenn víða um heim vildu nýtt verklag, ný viðhorf og námslán sem eitthvert gagn væri að.

En þessi kynslóð óx líka upp við vissa velmegun eftirstríðsáranna og söngvana „Bjössa á mjólkurbílnum“, „Villiöndina“, Elvis Presley og allt upp í Bítlana sem spurðu: „Will you still need me, will you still feed me when  I am 64?“

Það var vitanlega rosalega hár aldur í augum okkar unga fólksins í þá daga að verða 64 ára.  Enda var haft á orði að maður skyldi engum treysta sem komin væri yfir þrítugt.

Ég minnist þess sjálf  að um þetta leyti fannst mér það ekki vera glætan að ég gæti verið á lífi aldamótaárið 2000 – enda yrði ég orðin 57 ára gömul það árið.


Enginn lifir hana af

Elli kerling getur verið sumum grimm og miskunnarlaus – enda lifir enginn ellina af.

Hún getur verið fólki mismunandi farsæl og á stundum ráðum við lítið við það ferðalag. Fólk er flest hvað ekki kvartssárt og það er nú svona fremur haldið aftur af okkur en hitt að vera að kvarta.

Lífið getur verið grimmt. Það er engin launung – en það á ekki einungs við um gamalt fólk, fólk getur verið heilsulaust, veikt, einmana, blankt og þunglynt og kvíðið á öllum aldri. Við erum alls konar. Ung sem gömul.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess hér af því ég nefni orðið grimmd að mannfræðirannsóknir hafa leitt í ljós að víða eru til heimildir um að á  hallæristímum og  í nístandi harðindum var gripið til þess að bera út sjúklinga, gamalmenni og börn,  í þann harðbakka og vitað var að einhverjir hlytu að falla.

Í Skarðsbók segir t.a.m. um veturna  árin 975-976  –  þá var nístandi kuldi eða og gífurlegt harðræði á landi hér: „Þá átu menn hrafna og melrakka og mörg óátan ill var etin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra.“


Til varnar ellinni

Í Rómaborg kom út bók  árið 44. fyrir Krist eftir Marcus Túllius Ciceró þá 62 ára gamall. Á íslensku fékk hún heitið „Um ellina“. Orðræða þessarar bókar á erindi við okkur en þann dag í dag.

Á einum stað segir: „Afreksverkin verða ekki unnin með líkamskröftum, flýti né fjöri. Þar verður að koma til skynsamlegt vit, myndugleiki og dómgreind. Og því fer víðs fjarri að slíkir kostir fjari út með aldrinum – öðru nær. Þeir færast einmitt í aukana“.

Á öðrum stað segir hann m.a: Ellina sem allir þrá að höndla en fárast svo yfir þegar hennar verður vart. Þar sem náttúran hefur hagað öllum þáttum mannlegs lífs við hæfi þá er ólíklegt að hún kasti höndunum til lokaþáttarins, eins og hroðvirkt skáld“.


Og að lokum….

„Svarið við því hvenær við erum orðin gömul, er svona“, sagði Ásdís og vitnaði í útvarpsmanninn og leikhúsfrömuðinn Óskar Hermannsson –  „Þegar þú skilur  ekkert í þessum löggum á fermingaraldri niður í bæ“.

 

Mynd og grein: Lifðu núna.is