Einkenni hinnar nýju kórónaveirusýkingar geta verið svipuð inflúensu í upphafi sjúkdóms.
Á vefsíðu Landlæknis má finna mjög mikið af gagnlegum upplýsingum um kórónaveiruna, hvernig hægt er að forðast smit og viðbrögð ef grunur er um smit.
Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega og lýsa sér með hita, hósta, hálssærindum, höfuðverk, vöðvaverkjum og almennri vanlíðan.
Kórónaveiran veldur fyrst og fremst neðri loftvegasýkingu með áberandi hósta og getur skyndilega þróast í lungnabólgu sem getur gert öndun erfiða. Hiti, vöðva- og beinverkir eru líka algeng einkenni, en mun síður kvefeinkenni.
Árlega inflúensan veturinn 2019-2020 hefur farið hægt af stað.
Fyrstu vikurnar í janúar á þessu ári greindust færri með inflúensu en árin á undan en í 4. viku fjölgaði þeim sem voru með inflúensulík einkenni (sjá mynd). Þar sem þessir tveir faraldrar virðast ætla að ganga samtímis á norðurhveli jarðar kann það að valda vandamálum við greiningu sjúkdómanna. Þeir sem fá þessi einkenni eru hvattir til þess að halda sig heima og hafa samband við heilbrigðisþjónustu símleiðis ef óskað er eftir skoðun. Einnig er rétt að minna á að til eru öflug lyf gegn inflúensu (Tamiflu® hylki og Relenza® innúðaðalyf) sem geta dregið úr einkennum og flýtt bata ef þau eru tekin innan tveggja sólarhringa frá upphafi einkenna. Þessi lyf eru lyfseðilskyld og eru aðallega notuð fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri inflúensu.
Sóttvarnalæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:
- Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
- Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
- Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
- Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
- Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.
Af vefsíðu Landlæknisembættisins.