Fimmtudaginn 27. febrúar kl. 10:00 stendur SSNV fyrir vefráðstefnu um möguleika dreifðra byggða þegar kemur að svokölluðum skrifstofusetrum e. coworking space.
Meðal aðgerða í gildandi byggðaáætlun (aðgerð B.7) er gert ráð fyrir að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki.
Hagræði getur falist í því fyrir stofnanir og fyrirtæki að nýta skrifstofusetur, það sparast í húsnæði, aðstöðu og tækjabúnaði. Sömuleiðis er það hagræði fyrir starfsmanninn að hafa frelsi til að vinna þar sem hann kýs.
Með því að veita starfsmönnum það frelsi að velja sér vinnustað og vinnutíma, þá eykst starfsánægja og hollusta þeirra við yfirmenn og fyrirtæki. Starfsmannavelta hægist og fyrirtæki þurfa ekki að þjálfa eins mikið af nýliðum með tilheyrandi kostnaði.
Þeir sem vinna fjarri starfstöðvum fyrirtækis, segjast líka þjást minna af streitu.
Með því að bjóða upp á vinnu utan vinnustaðar fyrirtækis eða stofnunar, þá þýðir það líka að fólk, sem býr í sveit, eða afskekkt, á jafna möguleika og aðrir til að stunda þá vinnu. SSNV stendur fyrir vefráðstefnu um tækifæri dreifðra byggða þegar kemur að störfum án staðsetninga.