Í bókun Fræðslu- og frístundanefndar Fjallabyggðar frá 68. fundi nefndarinnar 4. mars sl er meðal annars:

1810051 – Erindi frá Trölla, hugmyndir um samstarf

Fyrir liggur umsögn deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem fram kemur að skólinn er nú þegar í samstarfi við Trölla á unglingastigi.

Félagsmiðstöðin Neon átti í samstarfi við Trölla um útsendingu á NorðurOrg sem haldin var 25. janúar sl. Bæði skólinn og félagsmiðstöðin eru opin fyrir frekara samstarfi.

Þá var Trölli með hugmynd um samstarf við Leikskóla Fjallabyggðar t.d. um fréttir og myndir úr starfi leikskólans. Að svo stöddu sér leikskólastjóri ekki hag í markvissu samstarfi þar sem samskipti við foreldra eru í föstum skorðum gegnum leikskólakerfið Karellen og fréttir af skólastarfinu eru birtar á heimasíðu leikskólans og sveitarfélagsins.

Fræðslu- og frístundanefnd hvetur félagsmiðstöðina og grunnskólann til að þróa samstarf við Trölla.is.