Nú er frost á fróni og verður áfram um allt land næstu daga.

Langt er síðan menn muna eftir sjónum ís- og krapalögðum á Siglufirði eins og sést á þessari mynd.

Mynd/ Halldór Gunnar Hálfdansson

Halldór Gunnar Hálfdansson bóndi á Molastöðum í Fljótum tók þessar fallegu vetrarmyndir í vikunni í Fljótum og Skagafirði, sýna þær að fátt er fallegra en vetrarstilla á frostdegi.

Í dag spáir norðlægri átt 8-13 m/s . Snjókoma með köflum eða él, en þurrt suðvestanlands. Bætir frekar í vind undir Vatnajökli annað kvöld.
Frost 1 til 13 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil, en sums staðar frostlaust syðst.

Á sunnudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s, en hvassari vindstrengir austast. Víða bjartviðri, en stöku él norðaustantil í fyrstu og syðst síðdegis. Frost 2 til 13 stig, kaldast inn til landsins, en hiti í kringum frostmark með suðurströndinni.

Á mánudag:
Hæg austlæg átt, yfirleitt léttskýjað og talsvert frost, en austanhvassviðri syðst stöku él og mildara.

Á þriðjudag:
Austan 8-15 m/s, en hvassara syðst. Skýjað sunnan- og austantil og stöku él, annars bjart með köflum. Frost 2 til 12 stig, en mildara suðvestanlands yfir hádaginn.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir austan- og norðaustanátt og víða dálítil él, en léttskýjað suðvestantil. Áfram kalt í veðri.

Myndir/Halldór Gunnar Hálfdansson