Farga móttökustöð var opnuð í Varmahlíð í fallegu vetrarveðri 18 nóvember. Eru það sveitarfélögin í Skagafirði sem standa að opnun Förgu móttökustöðvar en framkvæmdir hófust í byrjun sumars. Er um mikið framfaraskref að ræða í flokkun sorps í dreifbýli Skagafjarðar.
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri var ánægður við opnunina í dag:  „Með því að auka flokkun og endurvinnslu og draga úr urðun eins og lagt er upp með í þessari nýju og glæsilegu móttökustöð, þá standa vonir okkar til þess að nýjar leiðir verði ekki aðeins betri fyrir umhverfið, heldur einnig fyrir íbúana. Stefnumörkun stjórnvalda hér heima og erlendis er sú að notendur standi undir kostnaði við förgun þess úrgangs sem þeir bera ábyrgð á. Það er því allra ávinningur að flokka og minnka magn þess úrgangs sem fer í urðun og draga þannig úr kostnaði og spara auðlindir, umhverfinu og íbúum til hagsbóta.“

Leitað var til íbúa Skagafjarðar um nafn á móttökustöðina og bárust 62 tillögur. Kosið var um fimm álitlegustu nöfnin að mati umhverfis- og samgöngunefndar og bárust yfir 700 atkvæði í kosningunni. Eins og áður hefur komið fram sigraði Farga móttökustöð í kosningunni en það var Sigríður Stefánsdóttir frá Víðimýri sem sendi inn tillögu að nafninu. Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, tilkynnti nafnið og færði Sigríði blómvönd fyrir sigur í nafnasamkeppninni.

Á opnunartíma Förgu móttökustöðvar munu starfsmenn leiðbeina og aðstoða íbúa við flokkun sorps á stöðvunum. Einnig verður aðgengi að afmörkuðum gám utan opnunartíma en til að byrja með verður eingöngu hægt að afsetja heimilissorp þar.


Opnunartímar Förgu móttökustöðvar verður sem hér segir:

Mánudaga, miðvikudaga og föstudagaKl. 13-16
LaugardagaKl. 13-16

Sjá myndir: hér

Mynd/skagafjordur.is