Sigga Dóra

Siglfirðingurinn Sigga Dóra Kristjánsdóttir birti áhrifamikla frásögn af viðureign sinni við Covid-19 á facebooksíðu sinni í gær. Sigga Dóra er dóttir Siglfirðinganna Erlu Björnsdóttur og Kristjáns Haukssonar,

Hér að neðan má lesa áhrifamikla frásögn hennar af veikindunum.

Þegar ég fór að hugsa um áhrifin sem Covid-19 hefur haft á mitt líf ákvað ég að skrifa það niður.

Að gefnu tilefni. Þið þurfið ekkert að fara í bústað eða vera að þvælast innan um fullt af fólki akkúrat á þessum tímum. Við sem samfélag verðum að standa saman. Það á líka við þig. Ekki bara hina.

Laugardaginn 22. febrúar fórum við Siggi í skíðaferð til Madonna á Ítalíu ásamt vinahjónum. Sama dag voru fréttir af fyrstu tilfellum Covid-19 á Ítalíu. Minnir að þau hafi verið fjögur. Við fylgdumst vel með fréttaflutningi að heiman og horfðum í gegnum netið á upplýsingafundi Víðis, Þórólfs og Ölmu. Starfsfólk hótela og veitingastaða gerði ósköp lítið úr þessu. „It´s just a flu“ var sagt og voru hneyksluð á þessum ýktu viðbrögðum í eigin landi.

Virkilega veik af Covid-19

Við komum heim 29. febrúar, fórum í sóttkví og vorum hress framan af. Þann 8. mars fæ ég hita og verð ansi slöpp. Fer í sýnatöku 10. mars og greinist með Covid-19 svo við tók einangrun. Það var vissulega svolítið sjokk að fá það símtal en ég var sannfærð um að ég næði mér á næstu dögum. Svo var ekki. Ég var slegin niður um 2 dögum síðar og lá allt að því rænulaus eða í móki allan sólarhringinn næstu 12 daga.

Fékk háan hita, mikinn hósta, hroll, höfuðverk, ógleði, uppgang, missti bragð- og lyktarskyn, var lystarlaus með öllu, gat ekki talað né staðið í fæturna. Strax á fyrsta degi og daglega síðan hef ég fengið símtal frá hjúkrunarfræðingum og læknum, stundum oftar en einu sinni á dag. Ég fékk eitt verkefni og það var að drekka. Skipti engu máli þó ég gæti ekki borðað, en ég yrði að drekka. Verkefnið gekk þokkalega með aðstoð eiginmannsins sem reyndi að koma einhverri næringu ofan í mig sem var helst Powerade og Malt.

Siggi segir mér að það eina sem hann gat fengið mig til að borða þessar 2 vikur var skál af súrmjólk af og til. Hann var vakinn og sofinn yfir mér í gegnum þetta. Passaði að ég drykki, að ég tæki þær pillur sem ég átti að taka og reyndi að láta mig borða. Sumar nætur vaknaði hann og tékkaði þá á mér og hvort ég andaði ekki örugglega. Auðvitað smitaðist Siggi fyrir rest enda gat hann ekkert verið í einangrun frá mér þar sem ég var hálf rænulaus. Sem betur fer fékk hann mjög mild einkenni og jafnaði sig á nokkrum dögum. Heljarmennið sem hann er.

Hjónin á góðri stundu á Siglufirði

Ég fór að ranka við mér í kringum 24. mars og smám saman að fá matarlyst næstu daga á eftir. Hafði þá helst lyst á brauði með kavíar, vatnsmelónu og skinkuhornum og hrökkkexi sem vinkonur mínar og dóttir voru svo yndislegar að baka og færa mér. Mig langaði líka voðalega mikið í Mentos. Ég hef aldrei borðað Mentos.

Á einhverjum tímapunkti þegar veikindin voru sem verst vitjaði mín læknir. Ég man ekkert hvenær það var eða hvað hann sagði nema að ég átti að taka 8 parkdódín á dag til að halda niðri hita og hósta. Mókið varð ekki minna við það en ég svaf allavega þokkalega á nóttunni. Læknar og hjúkrunarfræðingar hringdu í mig daglega, stundum oftar en einu sinni á dag. Ég man ekki mikið eftir hvað var sagt í þeim símtölum og ég gat ekkert talað án þess að fá óstjórnlegan hósta. Ég man þó að í einhver skipti grét ég í símann af vanlíðan og algjöru vonleysi. Aldrei á allri minni ævi hefur mér liðið jafn illa.

Á sjúkrahúsinu

Eftir að ég komst til meðvitundar og fékk smá lyst, hitinn lækkaði og hóstinn minnkaði, þá hélt ég að þetta væri að koma og nú færi ég að snarhressast. Ég gat samt ekki gert mikið. Gekk fram í eldhús og náði mér í drykk og varð lafmóð. Eftir að hafa ekki getað talað í nærri 2 vikur án þess að hósta úr mér lungun, gat ég stunið upp nokkrum orðum en varð strax móð og fékk hóstakast. Þrekleysið algjört.

Föstudaginn 27. mars var mér sagt að koma á Covid göngudeildina en læknum þótti batinn of hægur, enda rétt tæpar 3 vikur frá því ég hafði veikst. Þar fór ég í lungnamyndatöku, blóðprufur, áreynslupróf og almenna skoðun. Kom þá í ljós að ég var með lungnabólgu og súrefnismettunin ekki góð. Ég fékk sýklalyf, malaríulyf, súrefnismettunarmæli og fyrirmæli um að koma aftur eftir sólarhring sem ég og gerði. Var þá sagt að koma aftur mánudagsmorguninn 30. mars. Í það skipti var ákveðið að leggja mig inn en þau höfðu áhyggjur af að ég væri með blóðtappa í lungum og einnig hversu mikið súrefnismettun féll.

Fyrirhöfnin að flytja smitaðan einstakling frá göngudeildinni og í innlögn er alveg gríðarleg. Mannskapurinn, búnaðurinn sem þetta fólk þarf að klæða sig í og úr, loka þurfti spítalanum frá inngangi og upp á 6. hæð meðan farið var með mig í gegn og sótthreinsa alla snertifleti á leiðinni. Sama ferli þegar flytja þurfti mig úr einangrunarstofunni í tölvusneiðmyndatöku um kvöldið. Starfsfólkið sem tók á móti mér á spítalanum var yndislegt og vel um mig hugsað að öllu leyti, eins og allt það góða fólk sem ég hafði hitt augliti til auglitis eða gegnum símtöl vikurnar á undan. Sem betur fer voru engin merki um blóðtappa eftir myndatökuna og súrefnismettun varð betri eftir sólarhring.

Ég var því útskrifuð seinnipart þriðjudagsins 31. mars og send heim í áframhaldandi einangrun þar sem ég fékk áfram dagleg símtöl frá frá læknum og hjúkrunarfræðingum. Löturhægt virðist þetta vera að koma. Mér er sagt að búa mig undir að það taki margar vikur að ná fullri orku og úthaldi.

Undanfarið hef ég spjallað við fjölskyldu og vini í síma og facetime án þess að fá óstjórnleg hóstaköst og mæðast eins og langhlaupari. Það er svo dásamlegt að ég á vart orð til að lýsa þeirri góðu tilfinningu. Ég skrölti um húsið og geri öndunaræfingar sem mér voru sendar. Ég næ mér í mat og drykk, þurrka kannski af einu borði og er á „ferðinni“ í smátíma en tankurinn tæmist hratt. Það er þó mikil framför og úthaldsmínútum fer fjölgandi.

Læknum og hjúkrunarfræðingum er ég óendanlega þakklát fyrir að halda utan um mig og stappa í mig stálinu í þessum ógeðslegu og ömurlegu veikindum þegar ég var oftar en einu sinni alveg við það að brotna.

Fólkið mitt. Foreldrar mínir sem hafa farið endalausar innkaupaferðir sem og börnin okkar, systkini, vinir og þið öll sem hafið fært okkur mat og drykk, kökur og sælgæti, bataóskir, baráttukveðjur, pepp og góða strauma.

Ég var „útskrifuð“ úr einangrun og eftirliti í gær. Ég hef verið heima í rúmar 6 vikur eða 44 daga.

Við erum öll Almannavarnir. Hlýðum Víði.

Myndir: úr einkasafni