Lykilatriði er að allir hafi aðgang að stafrænum lausnum eigi Norðurlöndin að ná þeirri framtíðarsýn að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Sérstaklega þarf að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér stafrænar lausnir. Þetta er efni yfirlýsingar sem félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlandanna samþykktu í gær í tengslum við fund sinn. Yfirlýsingin var undirrituð í Reykjavík en Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.
Stafrænar lausnir hafa hingað til ekki endilega hentað fötluðu fólki eða staðið því til boða. Þessu vilja ráðherrarnir breyta. Í yfirlýsingunni undirstrika þeir að aðgengi allra komi okkur öllum til góða.
„Við verðum að nýta tækifærin sem felast í nýsköpun, nýrri tækni, gagna- og gagnamiðlun þvert á landamæri Norðurlandanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, undirstrikar að með þessu hafi ráðherrarnir frumkvæði að sterkara norrænu samstarfi til að efla stafræna þróun og fyrirbyggja að fatlað fólk sitji eftir í stafrænum heimi.
„Við viljum að fatlað fólk geti nýtt sér tæknina í samskiptum við fyrirtæki, stofnanir og fleiri eins og öll önnur. Fatlað fólk á ekki að sitja eftir,“ segir hann.
Ungt fólk, félagsleg einangrun og Úkraína
Á fundi félags- og heilbrigðisráðherranna í dag var einnig rætt um mögulegar aðgerðir til að auka atvinnuþátttöku hjá ungu fólki, auk þess sem fjallað var um félagslega einangrun ungs fólks og andlega vanlíðan. Stríðið í Úkraínu var sömuleiðis til umfjöllunar og skiptust ráðherrarnir á upplýsingum um þann lærdóm sem draga mætti af þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til við móttöku flóttafólks.
Auk Guðmundar Inga stýrði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fundinum fyrir hönd Íslands.
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.
Mynd/aðsend