Einar Hansberg Árnason

Á heimasíðu Fjallabyggðar segir að gær, föstudaginn 16. ágúst, hefja UNICEF á Íslandi og crossfit kappinn Einar Hansberg Árnason hringferð um landið til að vekja athygli á átaki UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum – Stöðvum feluleikinn – sem hófst fyrr á þessu ári.

Mun Einar fara réttsælis um landið og byrjar því för sína á Vesturlandi í dag og á vestfjörðum á laugardaginn. Einar kemur á norðurlandið á sunnudaginn og verður í Íþróttamiðstöðinni á Siglufirði sunnudaginn 18. ágúst kl. 16:30. Eru allir áhugasamir hvattir til að mæta í ræktina á þessum tíma og taka æfingu, hjól, róður, skíði eða hvað sem er með Einari og sýna honum og verkefninu stuðning um leið.
Frítt verður í ræktina milli kl. 16:30 og 18:00 af þessu tilefni.

UNICEF skoraði á sveitarfélög í landinu til að finna leiðir til að koma í veg fyrir ofbeldi og bregðast við ef grunur leikur á að ofbeldi eigi sér stað. Og hefur Fjallabyggð ákveðið að hefja innleiðingu að  heildstæðu og samræmdu verklagi, vegna gruns um ofbeldi og vanrækslu, fyrir allar stofnanir sem starfa með börnum í Fjallabyggð.

Nánar um átakið

 „Átak UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum sem hófst í vor undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn er enn í fullum gangi. Þá boðaði UNICEF byltingu fyrir börn, sem mun nú berast um allt land dagana 16. – 24. ágúst þegar Einar fer hringinn í kringum landið til að styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi á börnum með heldur óvenjulegum hætti. Einar, fjölskylda hans og vinir, munu stoppa í 36 sveitarfélögum á einni viku þar sem Einar ætlar að róa, skíða eða hjóla 13 þúsund metra á hverjum stað, einn fyrir hvert barn sem verður fyrir ofbeldi á Íslandi. Í heildina mun Einar því fara um 500 kílómetra,“ segir í tilkynningu.

Markmið átaksins er að vekja athygli á því hversu alvarlegt ofbeldi gegn börnum á Íslandi er (13.000 börn á Íslandi verða fyrir ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn), þrýsta á stjórnvöld að standa vaktina og búa til breiðfylkingu fólks sem heitir því að bregðast við ofbeldi gegn börnum. Nú þegar hafa yfir 11 þúsund manns skrifað undir ákall UNICEF. „Það er svo auðvelt að horfa í hina áttina og vonast til að einhver annar taki slaginn. En það þarf ákveðið hugrekki til að rísa upp og taka slaginn sjálfur,“ segir Einar aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að hefja þessa áskorun. Hann hyggst síðan enda hringferðina með því að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu þann 24. ágúst til stuðnings UNICEF.

Samhliða hringferðinni mun UNICEF á Íslandi ítreka áskorun sína á sveitarfélög landsins að taka þátt og bregðast við ofbeldi á börnum. UNICEF hefur nú þegar sent ákall á öll sveitarfélög landsins og mun nýta slagkraftinn sem myndast með hringferðinni til að þrýsta á að öll sveitarfélög landsins setji sér skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi. Hægt er að skrifa undir ákall UNICEF hér:  https://feluleikur.unicef.is/

Hægt er að heita á Einar í Reykjavíkurmaraþoninu hér. Framlögin renna í baráttu UNICEF gegn ofbeldi á börnum á Íslandi.

 

Mynd: af vef Fjallabyggðar