Sumarferðum Voigt Travel lokið – vetrarferðir framundan
Flugvél Transavia sótti í dag hóp ferðamanna sem hafa dvalið á Norðurlandi undanfarna daga, þann síðasta sem ferðast hingað með ferðaskrifstofunni Voigt Travel í sumar. Alls hefur ferðaskrifstofan staðið fyrir 16 ferðum til Akureyrar í sumar, í beinu flugi frá Rotterdam og almennt hafa ferðalangarnir verið mjög ánægðir með alla þá þjónustu sem þeir hafa nýtt sér og ferðalagið sjálft.
Fljúga til og frá Amsterdam í vetur
Voigt Travel mun einnig bjóða upp á ferðir til og frá Norðurlandi í vetur en þá verður flogið frá Amsterdam. Alls verða átta brottfarir frá 14. febrúar og flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum. Ferðaskrifstofan mun bjóða upp á ýmsar pakkaferðir eins og áður, sem vonandi mun nýtast norðlenskri ferðaþjónustu vel.
Í sumar var aðeins flogið á mánudögum og í vetur gefst Norðlendingum því tækifæri til þess að skreppa í helgarferð til Amsterdam, en sala á slíkum ferðum er þegar hafin hjá Ferðaskrifstofu Akureyrar. Transavia mun fljúga á Boeing 737-700 vélum sem geta flutt 149 farþega.
Styttist í ILS búnað
Á þessu ári hefur Isavia unnið að uppsetningu ILS búnaðar við Akureyrarflugvöll og er áætlað að búnaðurinn verði tilbúinn til notkunar í nóvember. Það er afar mikilvægt fyrir millilandaflug í vetur, og í náinni framtíð, að búnaðurinn komist í notkun sem fyrst.
Unnið að nýju verkefni í stað Super Break
Eins og komið hefur fram í sumar fór móðurfélag bresku ferðaskrifstofunnar Super Break í gjaldþrot, og því miður er ekki útlit fyrir að starfsemi hennar verði endurreist. Því er það afar líklegt að ekkert verði af fyrirhuguðum flugferðum ferðaskrifstofunnar til Akureyrar í vetur, en þær hafa notið vinsælda á meðal breskra ferðamanna síðustu tvö ár. Markaðsstofan, ásamt öðrum hagaðilum, vinnur að því að koma samskonar verkefni af stað fyrir veturinn 2020-2021.
Mynd: ISAVIA/Auðunn Níelsson