Uppskrift

  • 6 stórar kartöflur, afhýddar og skornar í bita
  • ólífuolía (eða smjör)
  • salt og nýmalaður svartur pipar
  • múskat (má sleppa)
  • 2 egg
  • 2 stórir hnefar af spínati
  • 1 laukur, saxaður smátt
  • 1 gulrót, skorin í tvennt og söxuð smátt
  • 2,5 dl rjómi
  • 2 vænir hnefar af rifnum cheddar- eða parmesanosti
  • safi úr 1 sítrónu
  • 1 kúfuð teskeið enskt sinnep
  • stór hnefi af steinselju, söxuð smátt (má sleppa)
  • 450 g ýsu- eða þorskflök, roðflett, beinhreinsuð og skorið í ræmur

Hitið ofninn í 230°.

Setjið kartöflurnar í sjóðandi saltað vatn og látið þær sjóða í 2 mínútur. Setjið eggin varlega út í og sjóðið þau í 8 mínútur. Eggin eiga þá að vera orðin harðsoðin og kartöflurnar líka soðnar. Gufusjóðið spínatið um leið í sigti ofan á pottinum ( tekur um 1 mínútu ). Takið spínatið úr sigtinu, kreistið varlega úr því umframvætu og leggið til hliðar.

Takið eggin úr pottinum, kælið undir köldu vatni, takið utan af þeim og skerið í fernt. Leggið til hliðar.

Stappið kartöflurnar og setjið ólívuolíu eða brætt smjör saman við þær (ég nota alltaf smjör). Kryddið með salti, pipar og jafnvel smá múskati. Leggið til hliðar.

Steikið lauk og gulrót í ólífuolíu við vægan hita í um 5 mínútur. Hellið þá rjóma yfir og hitið að suðu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið osti, sítrónusafa, sinnepi og steinselju saman við.

Setjið fiskinn, spínatið og eggin í eldfast mót. Hellið rjómasósunni með grænmetinu yfir og endið á að setja kartöflumúsina ofan á. Setjið í ofn í 25-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar gylltar á lit. Berið fram með bökuðum baunum og tómatsósu.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit