Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta fréttir frá Hrísey
.

Enn ein vikan liðin hérna í Hrísey og þriggja daga helgi framundan núna á hvítasunnu.

Hér í Hríseyjarkirkju verður Ragna Steinunn Heimisdóttir fermd laugardaginn 18. maí og er hún eina fermingarbarnið hér í eyjunni þetta árið. 

Hríseyjarskóli hélt frábæra árshátíð síðast laugardag þar sem börnin sýndu mikla hæfileika. Leikskólabörnin sýndu myndband sem þau léku við lagið ,,Fiskurinn hennar Stínu” og var það stórskemmtilegt. Eftir myndbandið sungu börnin lagið um litina og hlutu mikið lof fyrir. Eftir leikskólaatriðin stigu grunnskólabörnin á stokk en í ár settu þau á svið Mjallhvíti og dvergana sjö. Var útfærslan, sviðsmyndin og börnin sjálf alveg frábær! Linda María Ásgeirsdóttir leikstýrði og greinilegt að börnin hafa lært og lagt mikið á sig. Væru eflaust mörg sem sátu í salnum til í að fara aftur á árshátíð Hríseyjarskóla, skemmtunin var slík. Var salurinn fullur af áhorfendum og gaman að sjá hversu mörg komu á sýninguna og á kaffihlaðborðið sem boðið var upp á þar á eftir. Sem var, að venju, bragðgott og glæsilegt! Það er því óhætt að segja að árshátíðardagurinn hafi verið mjög vel heppnaður. Skólablaðið Hrís var gefið út og fyrir þau sem ekki komust á árshátíðina geta keypt blaðið í Hríseyjarbúðinni.

Enn er beðið eftir því að við getum prófað nýja saunaklefan en eftirvæntingin er mikil. Infarauðiklefinn verður svo settur upp á næstu dögum og þá erum við heldur betur vel sett hérna í eyjunni okkar. Þar sem hitastigið er nú alla daga yfir núll gráðum eru mörg hver farin að huga að sjósundstiganum og að taka góðan sundsprett í sjónum við Sæborg. Við biðjum sjósundfara að fara varlega í stiganum þar sem veturinn hefur leikið hann illa, hluti hans horfinn og hann ekki mjög stöðugur. Við vonum að stiganum verði komið í gott stand áður en mesta sjósundtraffíkin fer af stað.

Það er ekki bara í sundlauginni sem verið er í framkvæmdum. Forstofurnar á neðri hæðinni í Hlein eru að taka breytingum sem verða til mikilla bóta! 

Það styttist í sjómannadag og mun dagskrá verða auglýst hér á síðunni þegar nær dregur. Þá er gott að fylgjast með Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar þar sem mun verða auglýst eftir sjálboðaliðum til aðstoðar. 

Eins og auglýst var hér á síðunni þá er búið að opna fyrir forsetakosningar utan kjörfundar hér í Hrísey. Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfunda á skrifstofu Akureyrarbæjar í Hlein, þriðjudaga og fimmtudaga milli klukkan 11 og 12. 

Áfram Hrísey verkefnið fékk góða heimsókn í vikunni þegar Háskólasetur Vestfjarða kom með 36 manna hóp af nemendum og kennurum frá fimm háskólum frá jafnmörgum löndum. Er þessi hópur hluti af sumarskóla Háskólaseturins og hægt er að lesa um verkefni þeirra og ferðir hér. Fóru nemendur í göngu um eyjuna, skoðuðu hana, upplifðu og tengdu við námsefni og rannsóknir sem þau vinna að í skólanum. Fór Ásrún svo yfir byggðaþróun Hríseyjar frá upphafi til dagsins í dag, sagði frá Áfram Hrísey verkefninu og framtíðarsýn og von unga fólksins í Hrísey. Svaraði hún svo spurningum nemenda sem voru fjölmargar, áhugaverðar og fjölbreyttar. Fór hópurinn að lokum að kanna Hrísey og það sem hún hefur upp á að bjóða áður en þau héldu í kvöldmat á Verbúðinni 66. Voru þau mjög ánægð með heimsóknina til Hríseyjar og aldrei að vita nema einhver þeirra sem hingað komu vilja skoða og rannsaka Hríseyjarlífið enn frekar í framtíðinni.

Krakkarnir í eyjunni kættust þegar ærslabelgurinn fylltist lofti í vikunni og mikið líf færðist yfir hátíðarsvæðið með hoppi, köllum og hlátrasköllum. Það er eitthvað við hríseysk sumur. Það er eins og allt sé hægt, ekkert sé ómögulegt og framtíðin aldrei verið bjartari! Ferðamannastraumurinn er hafinn og má sjá fólk á göngu alla daga vikunnar. Með hækkandi hita og sólskini eru líka fleiri sem kíkja í dagsferðir til Hríseyjar, skella sér í sund, fá sér kúluís í búðinni og svo fisk og franskar á Verbúðinni. Já sumarið er komið.

Veðurspáin er aðeins að stríða okkur þó núna um helgina. Hitinn fer ekki mikið yfir 6 gráðurnar og meiri líkur á regni en sól. Gönguleiðirnar eru ekki orðnar alveg auðar, snjór er enn að þrjóskast við og drullan gerir skóna skítuga. En það þýðir þá bara að maður tekur með sér auka sokka og gefur sér tíma í gönguna! Hvalir hafa verið að leika listir sínar rétt utan við þorpið og því gott að hafa annað augað á hafinu þegar farið er um. Íþróttamiðstöðin er opin alla helgina og því hljómar góð ganga í misgóðum aðstæðum um eyjuna og svo heitur pottur á eftir eins og gott plan! Hríseyjarbúðin hitar pizzaofninn í kvöld og Verbúðin 66 búin að tryggja sér nýjan fisk fyrir annað kvöld. Það ættu því öll að geta notið helgarinnar hér í Hrísey.

Heimild og myndir/hrisey.is