Lagður fram tölvupóstur Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á 374. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar varðandi ósk ráðuneytisins um þátttöku sveitarfélaga hvað varðar móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

Bæjarráð þakkar erindið og lýsir yfir vilja sveitarfélagsins til að taka á móti flóttafólki líkt og óskað er eftir í framlögðu erindi. Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að auglýsa eftir lausu húsnæði til að hýsa flóttamenn með það að markmiði að meta hversu mikið samfélagið í Fjallabyggð getur lagt að mörkum í málinu.

Einnig er bæjarstjóra falið að óska eftir minnisblöðum frá deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og deildarstjóra félagsmáladeildar um stöðu mála í þeirra málaflokkum svo meta megi getu sveitarfélagsins til að taka á móti flóttafólki.

Frumniðurstöður auglýsingar og minnisblöð deildarstjóra skal leggja fyrir bæjarráð svo fljótt sem verða má en eigi síðar en 31. mars.