Laugardaginn 19. maí og sunnudaginn 20. maí milli 12.00 – 13.00, mun Þröstur Þórhallsson vera með opið hús í Gagganum á Siglufirði og sýna þær þrjár íbúðir sem enn eru óseldar. Um er að ræða 2ja og 3ja herbergja íbúðir fullkláraðar með parketi og flísum á gólfum, fullbúnu eldhúsi með tækjum og tilbúnar til búsetu. Verð á þessum íbúðum er á bilinu 15.5 – 24.5 millj. Einnig er hægt að ná í Þröst í síma 897 0634 og fá að skoða eftir nánara samkomulagi.
Flestar íbúðirnar í húsinu eru nýttar sem orlofsíbúðir, tvær eru í langtímaleigu til Depla í Fljótum og er þar föst búseta.
Fimmtán íbúðir voru upphaflega áætlaðar í húsinu en fjárfestirinn Róbert Wessman sameinaði tvær penthouse-íbúðir á efstu hæð hússins í eina. Siglfirðingurinn Elín Þorsteinsdóttir innanhússarkitekt er að hanna íbúðina, reiknað er með að Róbert ætli sér og sínum penthouse-íbúðina.
Auk þessara tveggja íbúða fjárfestu Róbert og viðskiptafélagar hans í tveimur til og nam kaupverð þeirra yfir 100 milljónum króna.
DV var með umfjöllun um kaup Róberts og félaga þann 6. maí þar sem eftirfarandi kom fram.
“Róbert Wessman, forstjóri og stofnandi Alvogen, og viðskiptafélagar hans fjárfestu í fjórum glæsilegum lúxusíbúðum á Siglufirði. Íbúðirnar eru í sögufrægu húsi við Hlíðarveg 20 í bænum, sem áður hýsti grunnskóla bæjarins og gengur undir nafninu „Gagginn“ meðal bæjarbúa. Skólahúsinu hefur nú verið umbreytt í íbúðarhúsnæði sem inniheldur 15 lúxusíbúðir. Meðal annars fjárfestu Róbert og félagar í tveimur penthouse-íbúðum á efstu hæð hússins. Kaupverð eignanna liggur ekki fyrir.
Leikvöllur hinna ríku og frægu
Gríðarleg uppbygging hefur átt sér stað á Siglufirði undanfarin ár og virðist ekki sjá fyrir endann á henni. Stærstan þátt í henni á, að öðru ólöstuðum, Róbert Guðfinnsson, sem dælt hefur fjármagni í sinn gamla heimabæ og hefur sérstaklega horft til ýmiss konar ferðaþjónustu. Meðal annars hefur Róbert fjárfest fyrir hundruð milljóna í glæsilegum golfvelli sem ráðgert er að opna á þessu ári. Þessar fjárfestingar virðast svo sannarlega vera að skila sér því ýmislegt bendir til þess að Siglufjörður og nærliggjandi svæði sé að verða leikvöllur hinna ríku og frægu.
Róbert Wessman eygir tækifæri á Siglufirði.
Grunnskólinn gamli, sem lyfjaforstjórinn fjárfesti í, var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni og byggður á sjötta áratug síðustu aldar.
Sveitarstjórn Fjallabyggðar auglýsti húsið til sölu í febrúar 2015 og keypti fyrirtækið Gagginn ehf. fasteignina með það að leiðarljósi að útbúa þar lúxusíbúðir. Eins og áður segir keyptu Róbert og viðskiptafélagar hans tvær penthouse-íbúðir hússins sem eru 106 og um 80 fermetrar að stærð. Að auki fjárfestu þeir í tveimur íbúðum á neðri hæðum hússins sem báðar eru tæplega 150 fermetrar.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu seljanda eru enn þrjár íbúðir óseldar í húsinu. Lofthæð íbúða er víða frá 3 – 3,6 metrar enda húsið byggt upphaflega sem skólahús.
Fyrirtækjaflétta að auðmannasið
Eins og íslenskra auðmanna er siður þá var sett upp flókið net fyrirtækja í kringum fjárfestinguna. Þannig á félagið Hlíðarvegur 20 ehf. fasteignirnar fjórar en það félag er síðan í 100% eigu Aztiq fjárfestingar ehf. Það félag er síðan í 100% eigu Aztiq Partners AB og til að flækja málið enn frekar er það ágæta félag í eigu enn fleiri fyrirtækja og sjóða. Í ítarlegri úttekt Morgunblaðsins á dögunum kom fram að eignarhlutur Róbert Wessman í Aztiq Partners AB væri 74% í gegnum eignarhaldsfélagið Hexalonia Holdings í Lúxemborg. Viðskiptafélagar hans, Árni Harðarson og Divya Patel, ættu síðan 24% hlut í gegnum önnur félög.
Samkvæmt Fasteignaskrá gengu kaupin á íbúðunum á Siglufirði í gegn um áramótin 2016–2017 en síðan hefur farið drjúgur tími í að standsetja þær með glæsilegum hætti.”
Texti og samantekt: Kristín Sigurjónsdóttir
Sjá umfjöllun Siglfirðing um Gaggann “Skóla breytt í nýtísku íbúðarhús”