Fjármögnun á nýjum fjarskiptasæstreng milli Íslands og Írlands hefur verið tryggð með aðkomu ríkisins. Ráðgert er að taka strenginn í notkun fyrir árslok 2022, en honum er ætlað að stórauka öryggi í fjarskiptasamböndum Íslands við Evrópu í samræmi við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í fjarskiptum fram til ársins 2033.

Strengurinn, sem hlotið hefur nafnið ÍRIS, mun liggja milli suðvestur hluta Íslands og Galway á Írlandi og verður þriðji fjarskiptastrengurinn sem tengir Ísland við Evrópu. Fyrir eru FARICE-1 og DANICE strengirnir sem tengja Ísland við Skotland og Danmörku. Farice ehf., sem nú er í fullri eigu ríkisins, á og annast rekstur strengjanna. Frá því að FARICE-1 og DANICE strengirnir voru teknir í notkun hefur samfélagið orðið enn háðara öruggum fjarskiptatengingum við útlönd. Rof á fjarskiptasambandi, hvort sem er stutt eða langt, getur haft í för með sér verulegt tjón og óhagræði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og efnahag landsins. Stjórnvöld hafa því lagt áherslu á að fjarskiptatengingar við Evrópu verði í gegnum þrjá sæstrengi sem koma á land á mismunandi landtökustöðum.

Kostnaður vegna lagningu ÍRIS strengsins er áætlaður um 50 milljónir evra. Aðkoma stjórnvalda að fjármögnuninni er fyrst og fremst í þeim tilgangi að auka fjarskiptaöryggi Íslands. Af þeirri ástæðu er ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir innlend fjarskiptafyrirtæki vegna verkefnisins. Fyrirkomulag fjármögnunarinnar mun taka mið af öryggissjónarmiðum og þeim veruleika að fjarskipti og nettenging við umheiminn eru nú einn af grunninnviðum landsins. Ýmis tækifæri geta falist í beinni tengingu milli Íslands og Írlands fyrir íslensk fyrirtæki og almenning enda er Írlands ein helsta netmiðja Evrópu. Þannig styttist umtalsvert tíminn fyrir gagnaflutning til og frá Íslandi sem eykur enn gæði netsambands auk þess sem ný tækifæri gætu opnast fyrir íslensk gagnaver.

Farice hefur unnið að undirbúningi verkefnisins á árunum 2019 og 2020 með samningi við Fjarskiptasjóð. Nú þegar þeim undirbúningi er lokið lokið, tryggir fyrrgreind fjármögnun að unnt er að halda verkefninu áfram. Farice hefur samið við Subcom LLC um framleiðslu og lagningu strengsins. Félagið er leiðandi í framleiðslu og framkvæmdum við neðansjávar fjarskiptasæstrengi í heiminum og hefur komið að slíkum verkefnum víða um heim.

Með tilkomu nýs fjarskiptastrengs verður staða Íslands enn betri m.t.t. fjarskiptasambanda. Þannig verður ríkið í góðri stöðu til að takast á við framtíðarvöxt og aukna eftirspurn með öruggum fjarskiptasamböndum sem nútímasamfélög byggja á í enn meiri mæli en áður.