Í miðannarvikunni var áfangi í skapandi tónlist fyrir þá nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga sem ekki fóru til Kaupmannahafnar að taka þátt í verkefninu sem segir frá á vefsíðu MTR.

Í áfanganum var farið yfir ýmsa þætti sem tengjast tónlist, s.s. hópsöng, laga- og textasmíði, framkomu, skífuþeytingar, líkamsstöðu og öndun í söng o.fl. Kennari var Katrín Ýr Óskarsdóttir sem starfar sem söngkona í London og kennir raddbeitingu við Háskólann í vestur London.

Lagt var upp með að nemendur finndu eigin styrk í tónlist og öðluðust leikni í að skipuleggja og flytja verkefni í tengslum við þá leit. Vikunni lauk með því að nemendur sýndu verkefni sem þeir höfðu unnið að undir handleiðslu Katrínar.

Afraksturinn voru fjölbreytt og áhugaverð verkefni sem nemendur fluttu fyrir þá kennara og nemendur sem voru í húsi. Meðal þess sem boðið var upp á var rokklag útsett fyrir harmonikku, frumsamin lög og taktar, tónlistarmyndband með lego stop-motion og getraun um tónlist. Myndir



Myndir/Gísli Kristinsson