Í Fjallabyggð eru hvorki fleiri né færri en 13 íþróttafélög, öll halda þau uppi góðu starfi þó misjafnlega mikið sé.
Sum halda úti starfsemi allt árið um kring önnur eftir árstíðum eftir eðli íþróttanna innan hvers félags.Þrjú þeirra félaga sem halda aðallega úti starfi á veturna uppskáru ríkulega um síðustu helgi.
Skíðafélag Ólafsfjarðar hélt þá Landsmótið á skíðum í samstarfi við Skíðafélag Dalvíkur og var keppt í göngu á Ólafsfirði. Uppskera SÓ hefur sennilega sjaldan verið betri en í ár því að félagið vann til alls 17 titla, hvorki meira né minna.
Bar þar hæst að Matthías Kristinsson, sem keppir í flokki 16-17 ára, varð sjöfaldur Íslandsmeistari í karlaflokki í alpagreinum, sigraði í öllum sínum greinum. Þess má geta að hann er sonur Kristins Björnssonar skíðakappa.
Blakfélag Fjallabyggðar hélt síðustu mótshelgina í 2. og 3. deild Íslandsmóts kvenna í blaki í íþróttahúsunum í Fjallabyggð. Liðin komu hvaðanæva að og alls voru spilaðir um 50 leikir. BF átti lið í báðum deildum og varð 2. deildar lið BF Íslandsmeistari í 2. deild og liðinu í 3. deild tókst að halda sér uppi eftir mikla baráttu. 11 keppendur frá Tennis- og badmintonfélagi Siglufjaðrar tóku svo þátt í Íslandsmóti unglinga í TBR húsinu í Reykjavík um helgina. Stóðu Þau sig öll sérlega vel, sum voru að stíga sín fyrstu skref á stóru móti og sýndu góða takta önnur voru í toppbaráttu, bæði í A og B flokki.
Niðurstaðan varð að TBS krakkarnir komu heim með tvenn gullverðlaun og fimm silfurverðlaun. Hrafnhildur Edda Ingvarsdóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik í A-flokki U15 og Tómas Ingi Ragnarsson sömuleiðis í B-flokki U13.
Mynd og heimild/ Frétta- og fræðslusíða UÍF