Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir fjórða ársfjórðung 2021 sýna að staða vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði hefur batnað nokkuð frá árinu áður. Það má til dæmis sjá á því að hlutfall starfandi hefur hækkað og atvinnuleysi minnkað en um leið sést enn töluverð fjarvera frá vinnu.

Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 78,6% á fjórða ársfjórðungi 2021 sem er aukning um 2,5 prósentustig frá sama ársfjórðungi 2020. Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2021 var 200.500 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 75,1%. Frá fjórða ársfjórðungi 2020 til fjórða ársfjórðungs 2021 fjölgaði starfandi fólki um 16.100 manns og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 4,8 prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 72,1 % og starfandi karla 77,9%. Starfandi konum fjölgaði um 7.200 og körlum um 8.900. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 75,8% og utan höfuðborgarsvæðis 73,8%.

Til samanburðar voru 184.400 starfandi á fjórða ársfjórðungi 2020 og hlutfall af mannfjölda 70,3%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 67,7% og starfandi karla 72,7%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 70,6% og 69,8% utan höfuðborgarsvæðisins.

Af starfandi fólki á fjórða ársfjórðungi 2021 voru 147.100 í fullu starfi, eða 73,4%, og 53.400 í hlutastarfi eða 26,6%. Fólki í fullu starfi fjölgaði um 10.100 frá fjórða ársfjórðungi 2020 og fjöldi fólks í hlutastörfum jókst um 6.000. Af starfandi konum voru 60,8% í fullu starfi á fjórða ársfjórðungi 2020 og 84,3% af starfandi körlum. Af þeim sem voru í hlutastarfi á fjórða ársfjórðungi 2021 voru um 9.300 manns sem teljast vinnulitlir eða 4,6% af öllum starfandi. Til vinnulítilla telst fólk í hlutastarfi sem bæði getur og vill vinna meira.

Sjá nánar á vefsíðu Hagstofu Íslands.