Tröllaskagafjöllin frá Svarfaðardal og til Fljóta hafa mikið aðdráttarafl og eru hentug til útivistar á öllum árstíðum. Um Siglufjarðafjöll fara tíðum hópar, litlir eða stórir, frjálsir ferða sinna eða undir leiðsögn. Hér ber að nefna „fjallageitina“ Gest Hansa sem tekur að sér að leiðsegja allt frá Hvanndölum til Úlfsdala. Svo eru það Raggi Ragg og Lísa sem næstum daglega eru á ferðinni á eigin vegum og þekkja orðið hvern stein í fjöllum og skálum og dölum þessa svæðis – eins og lesendur siglufjordur.is fá stundum að fylgjast með.

Í þrjú ár hafa rekstrarstjórnendur Hótels Sigluness, þau Margrét og Hálfdán, staðið fyrir miklum gönguferðum frá Siglufirði. Fyrst var það Siglunesferð um Nesdal, Kálfsdal og Staðarhólsströnd. Þá kom Hólsskarð ásamt Héðinsfirði og Skeggjabrekkudal til Ólafsfjarðar. Nú í sumar voru það svo vesturfjöll Siglufjarðar sem buðu upp á sólskinsferð þar sem flestir hinna 45 þátttakenda náðu að klífa sex toppa. Þar er Skrámuhyrna að margra mati hámarkið en í góðu veðri er þaðan hið ótrúlegasta útsýni allt til Hornbjargs og Drangajökuls í vestri og austur um til Tjörness og Melrakkasléttu. Einstakt fjall á Norðurlandi með átta „gamlar“ sýslur í sjónmáli – og jafnast þetta víðsýni á við það sem Eyjafjallajökull og Snæfellsjökull bjóða sunnanlands og vestan.

Rétt er að taka það fram að samkvæmt þjóðsögum og munnmælum er Skráma tröllskessa sem býr í fjallinu, samanber örnefnið Skrámuhellisbrúnir.

Meðfylgjandi ljósmyndir eru frá nokkrum sextoppagöngum síðustu ára.

Kristjana, Emilía Petra og Alda – Hafnarhyrna í baksýn – Mynd, Eyrún Ingadóttir

 

Gengið á Skrámuhyrnu. Hvanneyrarhyrna og Illviðrishnjúkur fjær.

 

Már og Hrafn og hundurinn Skella á Skrámuhyrnu 2017

 

Af Skrámuhyrnu sést inn í Skagafjörð

 

Forsíðumynd: Á Skrámu 2007. Heiðursmennirnir Jón Dýrfjörð og Þorsteinn Jóhannesson – nú látnir. Fjær Siggi Steingríms, Óttar Sæmundsen og Kristína Berman.