Nemendur og starfsmenn við Menntaskólann á Tröllaskaga hafa á síðustu fimm árum tekið þátt í fjölmörgum erlendum verkefnum.

Flest hafa verið styrkt af Evrópusambandinu eða Norrænu ráðherranefndinni. Sum verkefnin hafa snúist um nemendaskipti en önnur um nám og þjálfun starfsmanna á námskeiðum, í skólaheimsóknum og á sérstökum námsstefnum. Nemendur og kennarar frá sautján Evrópuríkjum hafa tekið þátt í þessu samstarfi.

MTR hefur tekið þátt í fimm Erasmus+K2 verkefnum.

Þetta hafa verið samstarfsverkefni þar sem nemendur þriggja til fimm skóla í jafn mörgum löndum hafa hist og unnið saman að vel skilgreindum viðfangsefnum. Nefna má valdeflingu nemenda í dreifðum byggðum, lýðræði, þátttöku og borgaralega ábyrgð, umhverfismál og heilsu.

Erasmus+K1 styrkir eru veittir til að auðvelda nám og þjálfun starfsmanna.

Á tveimur síðustu árum hefur um helmingur starfsmanna MTR verið styrktur til að sækja námskeið sem hver og einn telur sér gagnleg. Styrkir fengust einnig til að sækja ecoMEDIA þjálfunarbúðir í Iasi í Rúmeníu 2016 og í Glasgow í Skotlandi 2017. Helstu þemu þar voru nýjungar í upplýsingatækni skólastarfs og þróun stafrænnar tækni við nám.

MTR hélt síðan ecoMEDIA búðir í Ólafsfirði haustið 2018. Þá er ótalið að tólf kennarar fóru í lærdómsríkar heimsóknir í þrjá skóla í Danmörku á árunum 2015 og 2016.

Norræna ráðherranefndin styrkir samvinnu norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkjanna í menntamálum.

MTR hefur tekið þátt í fjórum verkefnum sem styrkt hafa verið af Nordplus. Í tveimur þeirra unnu nemendur með dönskum jafnöldrum sínum frá Jótlandi og Sjálandi.

Viðfangsefnin voru annars vegar samþætting náms í náttúrufræði, útivist, íþróttum og dönsku og hins vegar stafræn sagnamennska – að nota upplýsingatækni til að segja sögur á netinu. Nordplus styrkti líka samstarf stjórnenda og kennara í tveimur háskólum og sjö framhaldsskólum í Eistlandi, Finnlandi, Lettlandi og á Íslandi. Markmið þess var að skiptast á upplýsingum um gagnlegar aðferðir við að auka val nemenda og sveigjanleika í námi.

Þá fengu MTR og Hönnunar- og listaskólinn í Riga í Lettlandi styrk til kennaraskipta.

Af: mtr.is