• Gildum leigusamningum fjölgar um rúmlega 400 milli mánaða segir á vefsíðu hms.is.
  • Þrír af hverjum fjórum gildum leigusamningum eru bundnir við vísitölu neysluverðs
  • Rúmlega helmingur íbúða eru leigðar út á markaðsverði

Alls tóku 1.286 nýir leigusamningar gildi í júní á sama tíma og 868 leigusamningar féllu úr gildi. Þannig fjölgaði gildum leigusamningum um rúmlega 400 í mánuðinum. Um 70 prósent af leigusamningum sem bæði tóku gildi og féllu úr gildi í mánuðinum vörðuðu íbúðir sem staðsettar eru á höfuðborgarsvæðinu.  Þetta kemur fram í upplýsingum sem HMS hefur unnið upp úr Leiguskrá nú í upphafi júlímánaðar. Myndin hér að neðan sýnir fjölda leigusamninga sem tóku gildi og féllu úr gildi eftir mánuðum það sem af er ári.

Leiguskrá geymir alla rafræna leigusamninga sem gefnir eru út hér á landi, en þar má finna íbúðir í eigu einstaklinga, almennra leigufélaga, óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga. Alls voru um 28.600 samningar skráðir í Leiguskrá nú í upphafi júlímánaðar og þar af voru um 21.980 samningar í gildi. Samkvæmt nýjustu lífskjarakönnun Hagstofu Íslands má ætla að um 34 þúsund heimili séu á leigumarkaði hér á landi og því má gera ráð fyrir að Leiguskrá nái nú yfir um það bil 65 prósent leigumarkaðar, en markmið HMS er að skráin spanni um 80 prósent markaðarins.

Þrír af hverj­um fjór­um leigu­samn­ing­um bundn­ir við vísi­tölu neyslu­verðs

Í upphafi júlímánaðar var leiguverð í um 75 prósent af gildum leigusamningum bundið við vísitölu neysluverðs, samkvæmt upplýsingum úr Leiguskrá HMS. Örfáir samningar voru bundnir við aðra vísitölu en um fjórðungur gildra samninga var ekki vísitölubundinn.

Verð á leiguíbúðum á vegum einstaklinga er í talsvert minna mæli bundið við vísitölu neysluverðs samanborið við verð á íbúðum á vegum lögaðila, hvort sem um er að ræða almenn leigufélög, óhagnaðardrifin leigufélög eða sveitarfélög. Einungis um 30 prósent samninga á vegum einstaklinga eru bundnir við vísitölu neysluverðs á meðan um 85 – 99 prósent samninga á vegum annarra leigusala eru vísitölubundnir, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Þetta á við um bæði tímabundna og ótímabundna leigusamninga.

Í þeim samningum sem bundnir eru við vísitölu neysluverðs er verð uppfært mánaðarlega í lang flestum tilvikum. Það þýðir að almennar verðlagshækkanir renna beint út í leiguverð að öllu leyti í stórum hluta leigusamninga.

Rúm­lega helm­ing­ur leigu­í­búða eru leigð­ar út á verði sem ákvarð­ast af mark­aðs­að­stæð­um

Einstaklingar og almenn leigufélög leigja út íbúðir á verði sem ákvarðast af markaðsaðstæðum hverju sinni. Íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga og sveitarfélaga eru aftur á móti alla jafna verðlagðar nokkuð undir markaðsverði.

Við upphaf júlímánaðar voru um 27 prósent allra gildra leigusamninga í Leiguskrá vegna íbúða sem leigðar eru út af einstaklingum og 27 prósent vegna íbúða sem eru leigðar út af almennum leigufélögum. Þannig er rúmlega helmingur leigusamninga í Leiguskrá vegna íbúða sem leigðar eru út á markaðsverði. Tæpur helmingur samninga varðar því íbúðir sem leigðar eru út á verði sem er undir markaðsverði, eða um 20 prósent á vegum sveitarfélaga og um 26 prósent á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga.

Myndin hér að neðan sýnir nettó fjölgun gildra leigusamninga í Leiguskrá eftir mánuðum og tegund leigusala. Með nettó fjölgun er átt við fjölda nýrra samninga umfram samninga sem féllu úr gildi á tilteknu tímabili. Líkt og myndin gefur til kynna var nettó fjölgun leigusamninga mest í janúar það sem af er ári og í maí varð nettó fækkun á leigusamningum þegar margir leigusamningar um íbúðir á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga, sem sjá meðal annars um námsmannaíbúðir, féllu úr gildi.

Það athugist að Leigufélagið Bríet er hér talið til almennra leigufélaga þar sem félagið leigir út íbúðir á markaðsverði, þó það starfi ekki með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi líkt og flest önnur almenn leigufélög.

Upp­lýs­ing­ar í Leigu­skrá í sí­felldri upp­færslu

Hægt er að skrá upplýsingar um leigusamninga afturvirkt í Leiguskrá. Þar af leiðandi er möguleiki á að upplýsingar um fjölda samninga sem taka gildi og falla úr gildi eftir mánuðum taki breytingum yfir tíma.  Ekki er því hægt að tryggja fullkomið samræmi í birtingu slíkra upplýsinga frá einum tíma til annars.