Á Facebook síðu Ljóðaseturs Íslands er greint frá því að fyrstu gestir ársins komu frá Bretlandi. Þar segir:

Það er ánægjulegt að segja frá því að fyrstu gestir ársins á Ljóðasetrinu voru Bretar sem komu fljúgandi frá heimalandinu beint til Akureyrar. Það er Ferðaskrifstofa Akureyrar sem býður upp á þessar ferðir í samstarfi við flugfélagið Super Break, verða þær um 20 talsins og er uppselt í þær allar samkvæmt fréttum.

Einhver hópur þessara ferðamanna hefur ákveðið að heimsækja Siglufjörð, fyrir tilstuðlan samstarfs Sigló Hótel og Suber Break, gista hér og skoða sig um. Enda er hér margt markvert að sjá sem tengist menningu og mannlífi.

Ljóðasetrið mun á næstu vikum fá 11 misstóra hópa slíkra ferðamanna í heimsókn, frá 2 og upp í 18 manns. Greinilegt er að tilvera setursins vekur athygli og þykir áhugaverð. Vonandi er þetta aðeins byrjunin á stærra ævintýri.

Fyrstu gestirnir voru aleildis ánægðir og kvittuðu fyrir sig í gestabókina með þessum orðum: Amazing museum – Well done!

 

 

Í færslu frá nóvember s.l. er sagt frá heimsókn skólabaran í setrið:

Á dögunum komu nemendur úr 1. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn á Ljóðasetrið. Fræddust þeir um íslenska ljóðlist, hlýddu á ljóðalestur og söng og síðast en ekki síst fluttu þeir sín eigin ljóð fyrir bekkjarfélagana, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Þessi heimsókn var liður í hinni árlegu ljóðahátíð Haustglæður. Hún samanstendur af ýmsum viðburðum sem tengjast íslenskri ljóðlist og fara þeir fram í Fjallabyggð frá sept. – des. ár hvert.

Það eru Félag um Ljóðasetur Íslands og Umf Glói sem standa að hátíðinni og Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkja framkvæmd hennar.

 

Nemendur úr 1. bekk í heimsókn á Ljóðasetur Íslands.