Þann 11. maí s.l. var haldin flugslysaæfing í Grímsey þar sem æfð voru viðbrögð við flugslysi. Markmiðið með flugslysaæfingum er að láta reyna á samvinnu allra viðbragðseininga á því svæði sem flugslys verða.
Þeir aðilar sem dags daglega sinna fyrstu viðbrögðum við slysum sem þessum eru alla jafna ekki til taks í Grímsey. Heimamenn í Grímsey bera hita og þunga af viðbragði þar til aðstoð frá nærliggjandi svæðum berst. Til að bregðast við þessu þá eru send boð á alla íbúa í Grímsey og þau upplýst um það sem hefur gerst.
Við undirbúning á æfingunni var boðið upp á fræðslu í formi fyrirlestra og verklegra æfinga og var lögð áhersla á að sem flestir gætu nýtt sér þá fræðslu. Farið var yfir skipulag á slysavettvangi, umönnun og bráðaflokkun slasaðra, aðkomu að flugslysi, slökkvistarf og björgun.
Að fræðslunni komu ráðgjafar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Isavia, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landspítala, slökkviliði Akureyrar, lögreglunni á Norðurlandy Eystra, Rauða Krossinum og fleiri. Margir tóku þátt í fræðslunni sem var í boði og var áhugi heimamanna mikill.
Æfingin hófst með því að send voru SMS textaskilaboð í alla farsíma í Grímsey og þannig fengu íbúar tilkynningu um æfinguna og að flugvél hefði brotlent við enda flugvallarins.
Þó svo að aðalmarkmið æfingarinnar hafi verið flugslys, þá nýtist fræðslan og undirbúningurinn þeim sem taka þátt í æfingunni við hvaða slys sem er.